Fyrsta markið kom strax á 2.mínútu leiksins þegar Jóhann Leifsson skoraði í fyrsta „power play“ leiksins eftir sendingar frá Sigurði Reynis og Birni Sigurðssyni. Skömmu síðar skoraði svo Björn sjálfur eftir sendingar frá Ólafi Hrafni og Tómasi Tjörva og síðasta mark lotunnar skoraði svo Siggi Reynis í „power play“ eftir sendingar frá Birni og Ólafi Hrafni.
Það var góð tilfinning að fara inn í búningsklefana með þetta forskot og stefnt var á að missa þetta ekki niður í 2.lotu og byrja af krafti. Það gekk heldur betur eftir og alls skoraði íslenska liðið fjögur mörk án þess að gestgjafarnir svöruðu fyrir sig. Þrjú markanna voru „power play“ mörk og voru skoruð af Jóhanni Leifs, Sigga Reynis og Brynjari Bergmann en jafnframt skoraði varnarmaðurinn ungi Andri Helgason eftir sendingu frá Gunnlaugi Guðmundssyni.
Markið hans Brynjars var einkar glæsilegt, en eftir að hafa spólað sig upp allan völl negldi hann pekkinum skeytin inn af löngu færi, en Brynjar var svo í lokin valinn besti leikmaður íslenska liðsins.
Í síðustu lotunni hélt íslenska liðið áfram um stjórnartaumana á ísnum en tókst þó ekki að skora mark. Þegar 27 sek voru eftir af leiknum tókst Nýsjálendingunum að setja eitt leðjumark og eyðileggja „shut-outið“ hans Snorra í markinu – en engu að síður, stórsigur í höfn á sterku liði Nýsjálendinga og verkefnið hálfnað hér á hjara veraldar.
Í annarri lotu lenti Arnar Bragi í harðri ákeyrslu djúpt í sóknarsvæðinu og meiddist við það á öxl sem hélt honum utan íss sem eftir lifði leiks. Hann mun fara í myndatöku í fyrramálið og þá kemur betur í ljós hverjar afleiðingarnar verða, en það er ólíklegt að hann verði klár í leikinn gegn Búlgörum á morgun.
Liðið var agað í dag og lítið var um brottrekstra eða aðeins 12 mínútur á móti 18. Í skotum vorum við með 55 skot á móti 27.
Leikurinn á móti Búlgurum á að vera skyldusigur en þeir geta verið harðir í horn að taka og því er nauðsynlegt að fara í þann leik af fullri alvöru. Við rúllum enn á þremur línum allan tímann og erum eina liðið hér sem gerum það. Gullleikurinn verður á sunnudaginn gegn Kínverjum og það verður gríðarlega skemmtilegur leikur.