Á laugardagskvöldið léku lið Húna og Víkinga á íslandsmótinu. Leiknum lauk með sigri Víkinga sem gerðu fjögur mörk gegn einu marki Húna.
Töluverður munur var á bekkjum liðanna en gestirnir í Víkingum mættu fáliðaðir til leiks en lið heimamanna í Húnum var ágætlega sett.
Staða Húna var því vænleg og ekki skemmdi fyrir þegar Róbert Freyr Pálsson kom þeim yfir fljótlega í leiknum.
Einum fleiri á ísnum náðu Víkingar hinsvegar að jafna rétt eftir miðja lotu og áður en lotunni lauk höfðu þeir náð að komast yfir. Bæði mörkin komu frá Ben DiMarco, bandarískum leikmanni Víkinga. Fyrrnefndur Ben kom Víkingum síðan í þægilega 1 – 3 stöðu fljótlega í byrjun annarrar lotu og enn seig á ógæfuhliðina hjá Húnum þegar Ingþór Árnason skoraði með góðu skoti utan af velli. Þriðja og síðasta lotan var síðan markalaus þó að færin vantaði ekki.
Með sigrinum nálguðust Víkingar topplið Bjarnarins sem hefur þó enn fjögurra stiga forskot en bæði liðin hafa leikið sjö leiki.
Mörk/stoðsendingar Húnar: Róbert Pálsson 1/0
Refsingar Húnar: 33 mínútur
Mörk/stoðsendingar Víkingar:
Ben DiMarco 3/0
Ingþór Árnason 1/1
Orri Blöndal 0/1
Andri Freyr Sverrisson 0/1
Jóhann Leifsson 0/1
Björn Már Jakobsson 0/1
Refsingar Víkinga: 10 mínútur
Mynd: Gunnar Jónatansson
HH