Úr leik SR Fálka og Bjarnarins sl. þriðjudagskvöld. Mynd: Ómar Þór Edvardsson
Hokkíhelgin að þessu sinni hefst með látum strax í kvöld þegar tveir leikir eru á dagskrá.
Fyrri leikur kvöldsins er leikur Húna og Víkinga í meistaraflokki karla. Leikurinn fer fram í Egilshöll og hefst klukkan 19.30. Þrátt fyrir að þetta langt sé liðið á tímabilið er þetta í fyrsta sinn sem liðin mætast á þessu tímabili. Það stafar af því að leik liðanna sem fara átti fram á Akureyri fyrir stuttu var frestað vegna veðurs og ófærðar. Húnar hafa átt ágætis gengi að fagna þetta tímabilið og mæta því fullir sjálfstrausts gegn Víkingum í kvöld. Víkingar munu mæta með sitt sterkasta lið til leiks og því má eiga von á hörku leik í Egilshöllinni í kvöld.
Í skautahöllinni í Laugardal mætast síðan í seinni leik kvöldsins SR og Ásynjur í mfl kvenna. Leikurinn hefst klukkan 20.15. Þetta er annar leikur liðanna á þessu tímabili en þau mættust á Akureyri og lauk þeim leik með sigri Ásynja sem gerðu 3 mörk gegn 2 mörkum SR-kvenna. Liðslistar liðanna eru ekki komnir í hús en líklegt er að bæði lið nái að stilla upp sínum sterkustu liðum þar sem framundan er æfingahelgi landsliða hér sunnan heiða.
Þótt ekki séu fleiri leikir á dagskrá þessa helgina er nóg um að vera það sem eftir lifir helgarinnar. Bæði landslið kvenna og einnig landslið karla skipað leikmönnum 20 ára og yngri munu nýta það sem eftir lifir helgarinnar til æfinga. Æfingaplan kvennaliðsins má hjá hér og U20 liðsins hér.