Hokkíhelgin að þessu sinni samanstendur af þremur leikjum sem allir verða leiknir hér sunnan heiða.
Fyrsti leikurinn fer fram í kvöld í Egilshöll en þá mætast Húnar og Jötnar í meistaraflokki karla og hefst leikurinn klukkan 20.30. Bæði lið stilla upp þremur sterkum línun eða svo og því mega menn eiga von á spennandi og skemmtilegum leik. Húnar hafa fyrir leikinn átta stiga forskot á Jötna sem eiga þó leik til góða. Leikmannalista má sjá á tölfræði síðunni.
Á morgun mætast síðan lið SR Fálka og Jötna í meistaraflokki karla í Laugardalnum og hefst sá leikur klukkan 17.30. Jötnar hafa, þegar þetta er skrifað, tveggja stiga forskot á SR Fálka og bæði lið munum mæta ágætlega mönnuð. Leikmannalisti leiksins mun koma inn á tölfræði síðu okkar síðar í dag.
Síðasti leikurinn hefst síðan strax að karlaleiknum í Laugardalnum loknum en þá mætast Skautafélag Reykjavíkur og Skautafélag Akureyrar í meistaraflokki kvenna. Þrátt fyrir að SR-ingar séu enn án stiga hefur leikurinn töluverða þýðingu fyrir SA. Þær berjast þessa dagana hatrammri baráttu við Björninn um heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni og svo gæti farið að markahlutfall réði því hvort liðið fær réttinn. SA-konur munu því leggja áherslu á sóknarleikinn en Björninn hefur um þessar mundir töluvert betra hlutfall en norðankonur.
Mynd: Gunnar Jónatansson
HH