Þrír leikir eru á dagskrá helgarinnar að þessu sinni og fara þeir allir fram hér sunnan heiða.
Í kvöld er ráðgerður einn leikur en það er leikur Skautafélags Reykjavíkur og Skautafélags Akureyrar í meistaraflokki karla. Leikurinn hefst klukkan 19.45 og fer fram í Laugardalnum. Gestirnir í SA eru í góðri stöðu og með sigri í kvöld geta þeir náð sjö stiga forskoti á næstu lið.
Einsog kom fram hér í gær hafa SR-ingar fengið til sín nýjan erlendan leikmann, Samuel Krakaver. Þeir munu hinsvegar verða án Jóns Andra Óskarssonar og Árna Bernhöft. SA-menn eru, einsog svo oft áður, að þétta lið sitt smátt og smátt. Tveir leikmenn hjá þeim eru fjarverandi vegna meiðsla, þeir Andri Már Mikaelsson og Einar Valentine.
Á laugardeginum fara fram tveir leikir í Egilshöllinni en fyrri leikur dagsins er leikur Bjarnarins og SA í 2. flokki sem hefst klukkan 17.30
Strax að honum loknum leika lið Bjarnarins og SA Ásynja í meistaraflokki kvenna. Liðin hafa mæst einusinni á þessu tímabili og þá fóru Ásynjur með nokkuð öruggan 5 - 0 sigur af hólmi. Birninum hefur bæst við nokkur liðsauki frá síðasta tímabili einsog komið hefur fram hérna á síðunni en einnig hefur liðið misst nokkuð af leikmönnum. Má þar nefna m.a. varnarmennina Elvu Hjálmarsdóttir og Lilju Maríu Sigfúsdóttir ásamt því að Ingibjörg G. Hjartardóttir er einnig komin í frí.
Mynd: Elvar Freyr Pálsson.
HH