Það er fjölbreytt hokkíhelgi framundan að þessu sinni með fjölda leikja.
Fjörið hefst strax í kvöld en þá mætast Esjan og Skautafélag Reykjavíkur á svellinu í Laugardal og hefst leikurinn klukkan 19.45. Þetta er í annað sinn sem liðin mætast en í fyrri leiknum fóru SR-ingar með 4 - 1 sigur af hólmi. SR-ingar hafa sótt um félagaskipti fyrir bandarískan varnarmann, Samuel Aaron Krakauer, en hann mun ekki ná að spila með liðinu í þessum leik.
Í fyrramálið hefst síðan fyrsta 4. flokks mót vetrarins og fer það fram í Laugardalnum. Dagskrá mótsins má sjá hér til hliðar.
Á Akureyri mætast síðan á morgun, laugardag, Skautfélag Akureyrar og Björninn í karlaflokki og hefst leikurinn klukkan 16.30 Fyrri leik liðanna lauk sigri Bjarnarins 4 - 3 eftir að jafnt hafði verið eftir hefðbundinn leiktíma. Eitthvað er um meiðsli hjá heimamönnum. Andri Már Mikaelsson, Einar Valentine og Jay LeBlanc eru allir frá. Norðanmenn hafa þó einnig bætt við frá síðasta leik því Sigurður Sigurðsson er kominn til baka og einnig munu Rúnar Freyr Rúnarsson og Hilmar Leifsson leika með liðinu á morgun.
Að karlaleiknum loknum mætast Ásynjur og Björninn í meistaraflokki kvenna. Þar gæti orðið um spennandi leik að ræða. Norðankonur hafa misst töluvert af leikmönnum frá síðasta tímabili einsog komið hefur fram hérna á síðunni. Sumir þessarra leikmanna hafa gengið til liðs við Björninn og koma án efa til með að styrkja liðið í komandi baráttu.
HH