Hokkíhelgin

Frá leik SA Víkinga og SR fyrr á tímabilinu
Frá leik SA Víkinga og SR fyrr á tímabilinu

Hokkíhelgin að þessu sinni samanstendur af fjórum leikjum hér innanlands en einnig mun kvennalandliðið hefja leik í 2. deild á HM á morgun, laugardag.
Við höfum því sett tengil hér hægra meginn á síðuna á mót stelpnanna sem fram fer í Jaca á Spáni. Ef einhverjar fréttir verða af netútsendingu frá leikjum á mótinu munum við að sjálfsögðu setja upp tengil fyrir það. Fyrsti leikur liðsins er gegn Mexíkó og hefst leikurinn klukkan 12.00 að íslenskum tíma.

Hér heima fer hinsvegar fyrsti leikurinn fram í kvöld klukkan 19.45 þegar UMFK Esja og Björninn leika í Laugardalnum. Þetta er síðasti leikur liðanna á tímabilinu og ekki ólíklegt að bæði lið vilji fara með sigur inn í fríið sem framundan er.

Á morgun laugardag mætast síðan á Akureyri lið SA Víkinga og Skautafélags Reykjavíkur og hefst hann klukkan 16.30. Það lið sem fer með sigur af hólmi mun hampa deildarmeistartitlinum 2015. Víkingar hafa tveggja stiga forskot á SR og töluvert betra markahlutfall og því í góðri stöðu. SR-ingar hafa hægt og bítandi verið að bæta sína stöðu á tímabilinu og því gæti orðið um hörku rimmu að ræða á morgun.

Tveir leikir fara einnig fram í 3. flokki og má sjá tímasetningar þeirra hérna til hliðar.

Mynd: Elvar Freyr Pálsson

HH