Hokkíhelgin

Frá leik Víkinga og Bjarnarins á tímabilinu
Frá leik Víkinga og Bjarnarins á tímabilinu

Það verður fjör hér sunnan heiða á hokkíhelgi því þrír leikir eru á dagskránni og í þeim mun fljótt koma í ljós hvaða leikmenn koma vel undan jólum og áramótum. Allir fara leikirnir fram á morgun, laugardag.

Fjörið hefst í Egilshöll klukkan 17.30 en þá mætast Björninn og SA Víkingar í meistaraflokki karla. Um sannkallaðan toppslag er að ræða því Björninn, sem er í öðru sæti, getur með sigri minnkað forskotið á Víkinga niður í þrjú stig. Andri Steinn Hauksson er fjarverandi í liði Bjarnarins en þeir Jón Árni Árnason og Edmunds Induss sem léku í noregi í vetur eru komnir aftur til síns heima. Þó er ekki ljóst hvort leikheimild verður tilbúin fyrir þá áður en flautað verður til leiks. Hjá Víkingum vantar Sigurð Reynisson, Sigmund Sveinsson og Andra Má Mikaelsson en nafni þess síðarnefnda, Andri Freyr Sverrisson er þó líklegur til að vera með.
Klukkan 18.00 hefst síðan leikur Skautafélags Reykjavíkur og SA Ásynja í meistaraflokki kvenna og fer sá leikur fram í Laugardalnum. SR-konur hafa, einsog undanfarin ár, átt á brattann að sækja og svo mun sjálfsagt verða eitthvað áfram en liðið er enn án stiga. Þrátt fyrir að lánsfyrirkomulag sé fyrir hendi ætla SR-konur að treysta mestmegnis á sitt eigið lið í leiknum á morgun. Ásynjur, sem unnu SR-inga örugglega í síðasta leik, hafa ekki enn sent inn leikmannalista og því ekki vitað hvernig liðið verður skipað á morgun.
Að kvennaleiknum loknum leiða saman hesta sína lið UMFK Esju og Skautafélags Reykjavíkur í karlaflokki. Heimamenn í Esju hafa átt á brattann að sækja undanfarna leiki en munu án nokkurs vafa ætla að bæta við núna á síðari hluta tímabilsins. Ekki er annað vitað en að liðið mæti fullmannað til leiks, að undanskildum Agli Þormóðssyni sem er í leikbanni. Liðslisti SR-inga hefur hinsvegar ekki enn borist og því ekki vitað hvernig liðsuppstilling þeirra verður.

Mynd: Sigurgeir Haraldsson

HH