Dagskráin í íshokkí er þétt þetta tímabilið því fyrir liggur að skautahöllinni á Akureyri verði lokað þ. 1. mars nk. vegna viðhalds. Það þýðir að um hverja helgi eru leikir og svo er einnig um þessa helgi eru þrír leikir á dagskrá og allir fara þeir fram í Reykjavík.
Í Laugardalnum mætast klukkan 18.30 á morgun, laugardag, Skautafélag Reykjavíkur og SA Víkinga. Heimamenn í SR hafa átt erfitt uppdráttar en liðið hefur einungis eitt stig eftir fjóra leiki. Flest allir leikmenn liðsins eru heilir og Arnþór Bjarnason er kominn til baka eftir að hafa misst af síðasta leik vegna veikinda. Víkingar sakna hinsvegar Sigurðana- Sigurðssonar og Reynissonar.
Í Egilshöll mætast á sama tíma Björninn og SA Ynjur í kvennaflokki. Þetta er í fyrsta skipti sem liðin mætast á þessu tímabili. Bjarnarkonur hafa ágætis hóp misreyndra leikmanna en einn þeirra leikreyndstu, Hanna Rut Heimisdóttir, verður ekki með á morgun. Ynjur hafa einungis tapað einu stigi í þeim þremur leikjum sem þær hafa leikið en sumir leikmanna liðsins eru ungir og efnilegir.
Þriðji leikurinn sem fer fram á morgun er leikur Bjarnarins og Skautafélags Akureyrar í 3. flokki í Egilshöll en sá leikur hefst klukkan 16.30.
Mynd: Elvar Freyr Pálsson
HH