Framundan er fjölbreytt hokkíhelgi að þessu sinni en að þessu sinni fer hún öll fram hérna sunnan heiða.
Fyrsti leikur helgarinnar er í kvöld en þá mætast UMFK Esja og Skautafélag Reykjavíkur í Laugardalnum og hefst leikurinn klukkan 19.45. Síðasti leikur liðanna var jafn og spennandi en það voru SR-ingar sem skoruðu mörkin en leiknum lauk með 3 - 0 sigri þeirra. Robbie Sigurðson er fjarverandi úr SR-liðinu vegna meiðsla og hjá Esju er Matthías Skjöldur Sigurðsson kominn til baka en Egill Þormóðsson er í leikbanni.
Síðari leikurinn í meistaraflokk er leikur Bjarnarins og SA Víkinga, á morgun laugardag, en sá leikur fer fram í Egilshöll og hefst klukkan 18.10. Fyrir leikinn eru Víkingar efstir í deildarkeppninni með 27 stig, fimm stigum á undan Birninum sem kemur næstur. Leikurinn hefur, einsog gefur að skilja, all mikla þýðingu fyrir bæði lið. Ekki er vitað um neinar fjarvistir leikmanna í liði Bjarnarins en hjá Víkingum hafa tveir leikmenn útskrifast af sjúkralistanum. Annarsvegar Sigurður Reynisson og hinsvegar Orri Blöndal sem verið frá um nokkurn tíma. Rúnar F. Rúnarsson er hinsvegar í leikbanni.
Egilshöllinn verður síðan full af lífi alla helgina þegar fer fram mót í barnarflokkum. Spilað er frá morgni til kvölds á laugardaginn og á sunnudaginn til hádegis. Dagskrá mótsins má sjá hér.
Tveir leikir fara síðan fram í þriðja flokki um helgina. Báðir í Laugardalnum en þar mætast Skautafélag Reykjavíkur og Skautafélag Akureyrar. Fyrri leikurinn er á laugardeginum og hefst klukkan 18.30 en sá síðari á sunnudagsmorgni klukkan 10.00.
Mynd: Sigurgeir Haraldsson
HH