Tímabil hokkímanna hefst í kvöld þegar Skautafélag Reykjavíkur og UMFK Esja mætast í meistaraflokki karla í Skautahöllinni í Laugardal og hefst leikurinn klukkan 19.45.
UMFK Esja er nýtt lið í deildinni þetta árið og einsog sjá mátti í frétt um félagaskipti hér á síðunni fyrir stuttu hefur liðið verið að sanka að sér leikmönnum undanfarið. Liðið er þó ekki fullmannað ennþá en fróðlegt verður að sjá hvernig þeim mun reiða af í vetur. SR-ingar hafa misst leikmenn yfir í hið nýja félag en þeir hafa einni bætt við sig en þar má helst nefna Robbie Sigurdsson sem er kominn aftur og svíann Victor Andersson sem mun leika með liðinu í vetur.
Áður en síðari leikur helgarinnar verður leikinn á morgun fer fram kynningardagur ÍHÍ og aðildarfélaga þess, Hokkídagurinn mikli. Ástæða er til að hvetja hokkíáhugamenn að koma deginum á framfæri með öllum ráðum.
Á morgun mætast síðan í Egilshöllinni klukkan 17.30. Björninn og SA í mfl karla en þau lið léku til úrslita á síðasta tímabili. Rétt einsog SR hafa Bjarnarmenn misst nokkuð af leikmönnum til UMFK Esju. Björninn hefur fengið til sín franskan leikmann Nicolas Antonoff að nafni sem vafalaust mun styrkja liðið. Norðanmenn munu aftur tefla fram þeim Ben Di Marco og Rhett Vossler en einn erlendur leikmaður í viðbót býður félagaskipta. Andri Már Mikaelsson er einnig kominn heim.
Síðar í dag verða gefin út öll þau félagaskipti, bæði í kvenna- og karlaflokki, sem hægt er að afgreiða.
Það lýtur út fyrir að tímabilið framundan verði spennandi bæði í karla- og kvennaflokki og því um að gera að láta sjá sig á leikjum vetrains.
Ekki er enn vitað hvort hægt verður að vera með beinar textalýsingar frá fyrsta leik en unnið er í málinu af fullum krafti.
HH