Úr leik Víkinga og Bjarnarins á síðasta tímabili. Mynd: Sigurgeir Haraldsson
Hokkíhelgin samanstendur af tveimur leikjum að þessu sinni.
Í kvöld eigast við lið Skautafélags Reykjavíkur og Bjarnarins í meistaraflokki kvenna og hefst leikurinn klukkan 20.15 og fer fram í Laugardalnum.
SR-ingar taka nú þátt í íslandsmóti kvenna þriðja árið í röð og er það vel. Liðið er reynslulítið og ungt að árum en vonandi mun það smátt og smátt eflast að getu. Liðið hefur fengið nýjan þjálfara en Eggert Steinsen mun þjálfa liðið í vetur. Bjarnarstúlkur hafa misst úr sínu liði tvo leikmenn sem hoknir eru af reynslu en það eru þær Hanna Rut Heimisdóttir og Kartias Halldórsdóttir. Hrund Thorlacius er hinsvegar kominn frá Akureyri og mun leika með þeim í vetur.
Á morgun leika síðan í Egilshöllinni lið Bjarnarins og Víkinga og hefst leikurinn klukkan 19.00 Bæði lið hafa styrkt sig fyrir veturinn en einnig misst frá sér leikmenn. Síðar í dag mun birtast hér á heimasíðu ÍHÍ leikheimildir fyrir nýja leikmenn. Björninn er núverandi íslandsmeistari í karlaflokki en norðanmenn áttu erfitt tímabil í flokknum í fyrra og ætla sér sjálfsagt stærri hluti þetta árið. David MacIsaac verður áfram þjálfari Bjarnarins en norðanmenn hafa ekki enn ráðið þjálfara svo vitað sé.
HH