Hokkíhelgi

Það er góð helgi framundan í hokkíinu sem að þessu sinni fer fram bæði á höfuðborgarsvæðinu og í höfuðstað norðurlands, Akureyri.

Strax í fyrramálið klukkan 8.00 að staðartíma hefst 4. flokks mót sem kennt er við Bautann. Mótið er eina bikarmót keppnistímabilsins en önnur mót sem haldin eru í þessu flokki eru Íslandsmót og því má segja að þetta mót sé góð upphitun. Mótið er bæði á á laugar- og sunnudeginum og dagskrá þess má sjá hér

Á morgun laugardag fara hinsvegar fram tveir leikir og eru þeir báðir í Egilshöll.

Í meistaraflokki karla leika Björninn og SA Jötnar og hefst leikurinn klukkan 16.30. Bæði liðin hafa fyrir leikinn á morgun leikið tvo leiki. Bjarnarmenn hafa unnið báða sína leiki og hafa því sex stig. Jötnar hafa hinsvegar unnið og tapað og eru því með þrjú stig. Jötnar bættu við manni í lið sitt í dag en ekkert er vitað um getu hans á ísnum. 

Strax á eftir leik karlanna fer fram leikjur í meistaraflokki kvenna en þar eigast við Björninn og SA Ynjur. Liðin áttust einnig við um síðustu helgi og þá höfðu Ynjur sigur en þær unnu með 16 mörkum gegn 2. Bjarnarstúlkur munu því án nokkurs vafa mæta ákveðnar til leiks. Kvennahokkíið er hinsvegar í miklum blóma norðan heiða og þær því erfiðar við að eiga.

Að lokum má geta þess að helgin verður nýtt í landsliðsæfingabúðir fyrir kvennalandsliðið en Richard Tahtinen þjálfari liðsins hefur yfirumsjón með þeim. Æft verður bæði í Laugardalnum og Egilshöll en konur úr öllum liðum hafa verið kallaðar í hópinn. Dagskrá búðanna má sjá hér.

Mynd: Ómar Þór Edvardsson

HH