Hokkíhelgi


Frá leik Jötna og SR fyrir stuttu                                                                                      Mynd: Sigurgeir Haraldsson

Hokkíhelgin að þessu sinni samanstendur þrettán leikjum í karla- kvenna- og unglingaflokkum. Það verður því nóg að gera hjá leikmönnum, þjálfurum, dómurum og öllum þeim hinum sem sjá til þess að leikurinn geti farið fram.

Strax á föstudagskvöldið klukkan 20.00 fer fyrsti leikurinn fram en þá mætast í Laugardalnum SR og Jötnar í meistaraflokki karla. Liðin hafa leikið þrjá leiki í vetur en þann fyrsta unnu SR-ingar mjög svo örugglega en í leikjunum tveimur sem á eftir komu náðu þeir í þrjú stig af sex mögulegum. Hjá SR-ingum er Pétur Maack enn á sjúkralistanum en þó lítur út fyrir að meiðsli hans séu ekki eins alvarleg og áður var talið. Liðslisti Jötna liggur ekki fyrir en gera má ráð fyrir að þeir mæti með sterkt lið enda annar leikur strax daginn eftir.

Strax á laugardagsmorguninn hefst síðan mót í 4. flokki og fer það mót fram á Akureyri. Þetta er þriðja mót vetrarins en einungis annað mótið sem gefur stig til íslandsmeistaratitils þar sem fyrsta mótið í flokknum var bikarmót. Dagskrá mótsins má finna hér.

Klukkan 16.30 á laugardeginum mætast síðan í Egilshöllinni lið Húna og Jötna. Húnarnir hafa unnið tvo leiki á tímabilinu, annarsvegar gegn Víkingum og hinsvegar gegn Jötnum. Að meðtöldum þessum leik eiga Húnar eftir þrjá leiki og sá síðasti þeirra gæti orðið mikilvægur en hann er gegn Víkingum í Egilshöllinni þann 3. mars. Húnarnir munu því sjálfsagt nota leikinn til að stilla saman strengina fyrir þann leik.

Síðasti leikur helgarinnar fer síðan fram á sunnudagskvöld en þá leika SR og Björninn í meistaraflokki kvenna. Leikurinn hefst klukkan 21.15. SR-konur hafa allan þennan vetur átt erfitt uppdráttar en uppbygging tekur tíma og hann verður liðið að fá. Bjarnarkonur eru að sumu leyti í sömu sporum, þ.e. töluvert er af nýliðum í liðinu.  Þó eru þar nokkrir reynsluboltar sem koma liðinu  til góða þegar á reynir.

HH