Úr leik Bjarnarins og Ásynja Mynd: Bryndís Ingibjörg Björnsdóttir
Hokkíhelgin að þessu sinni fer fram sunnan heiða og á dagskrá eru þrír leikir í meistaraflokkum karla og kvenna.
Á föstudagskvöldið leika í Skautahöllinni í Laugardal lið Skautafélags Reykjavíkur og Víkinga og hefst leikurinn klukkan 20.00 Eins og kom fram í frétt hjá okkur í gær skiptir hver leikur máli og þá sérstaklega fyrir gestina að norðan. Vitað er að Pétur Maack mun ekki leika með SR-ingum vegna meiðsla en án efa munu bæði lið reyna að stilla upp sínum sterkustu liðum. Liðin hafa leikið tvo leiki í vetur og höfðu SR-ingar sigur i þeim báðum.
Á laugardagskvöldið klukkan 19.30 leika síðan í Egilshöll Björninn og Ásynjur í meistaraflokki kvenna. Ásynjur er enn ósigraðar í deildinni og munu leggja kapp á að svo verði áfram. Síðasti leikur liðanna var æsispennandi og skemmtilegur og endaði með sigri Ásynja sem gerðu tvö mörk gegn einu marki Bjarnarkvenna.
Hokkíhelgi lýkur síðan á sunnudagskvöld í Laugardalnum með leik Skautafélags Reykjavíkur og Ásynja í kvennaflokki og hefst leikurinn klukkan 20.15. SR-konur hafa átt erfitt uppdráttar enda liðið sett saman að nýju á síðasta tímabili. Ásynjur á hinn bóginn eru með reynslumikið lið og því verður á brattann að sækja fyrir gestgjafana.