Hart barist í síðasta leik liðanna Mynd: Sigrún Björk Reynisdóttir
Hokkíhelgin að þessu sinni fer fram að mestu leiti sunnan heiða. Á Akureyri verður einnig tekið á þótt með öðrum hætti sé.
Fjörið hefst í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld klukkan 20.00 en þá leika Skautafélag Reykjavíkur og Björninn meistaraflokki karla. Liðin hafa leikið einn leik á þessu ári og fór sá leikur fram í Egilshöllinni. Björninn vann með 7 mörkum gegn 3 og tryggðu sér þar með þrjú dýrmæt stig. Hvorugt lið getur stillt upp sínu sterkasta liði. Hjá heimamönnum í SR vantar varnarmanninn Snorra Sigurbjörnsson og sóknarmennina Björn Róbert Sigurðarson og Robbie Sigurðsson. Hjá Bjarnarmönnum vantar hinsvegar Sigurstein Atla Sighvatsson og Richard Tahtinen í vörnina og markvörðurinn Styrmir Örn Snorrason er tæpur. Bæði lið hafa hinsvegar úr ágætis hópum að velja og maður kemjur ávallt í manns stað. Dave Macisaac þjálfari hefur verið fjarri góðu gamni síðustu vikur en gert er ráð fyrir að hann verði mættur á bekkinn.
Á laugardaginn leika síðan í Egilshöllinni Húnar og Víkingar í meistaraflokki karla og hefst sá leikur klukkan 16.30. Húnar munu án nokkurs vafa reyna að ná stigi eða stigum af Víkingum. Stutt er síðan Húnarnir tryggðu sér sín fyrstu stig með sigri á Jötnum í Egilshöllinni og því verður spennandi að sjá hvernig liðsuppstilling þeirra verður. Ekki er vitað um nein meiðsli í liðunum og ekki annað vitað en að Víkingar mæti með sitt sterkasta lið.
Norðan heiða fer enginn leikur fram þessa helgina en hún verður hinsvegar notuð fyrir æfingabúðir kvennalandsliðsins. Þar mun Richard Tahtinen þjálfari liðsins hafa hinar ýmsu æfingar einsog sjá má í þessari dagskrá.
HH