Þrír leikir á íslandsmóti fara fram um helgina og eru tveir þeirra í meistaraflokki en allir fara leikirnir fram á morgun, laugardag.
Í meistaraflokki kvenna mætast í Laugardalnum klukkan 18.30 lið Skautafélags Reykjavíkur og SA Ynja. Liðin hafa mæst einu sinni áður og þá unnu Ynjur stóran sigur en þær gerðu tuttugu mörk gegn engu marki SR-kvenna. Það er því ekkert annað í stöðunni fyrir SR-konur en að þétta vörnina og gera betur á morgun.
Strax að kvennaleiknum loknum eða um klukkan 21.00 mætast UMFK Esja og Skautafélag Reykjavíkur í karlaflokki. Þetta er annar leikur liðanna á tímabilinu en fyrri leikinn vann Esja á gullmarki en lokatölur urðu 5 - 4. Flest allir leikmenn beggja liða eru heilir fyrir utan að Arnþór Bjarnason vantar í lið SR.
Í Egilshöllinni mætast síðan lið Bjarnarins og SA í 2. flokki og hefst sá leikur klukkan 18.30
Mynd: Gunnar Jónatansson
HH