Upp er runnin enn ein hokkíhelgin og einsog vanalega vantar ekki að nóg er um að vera.
Strax í kvöld hefst fjörið þegar í Skautahöllinni í Laugardal mætast Skautafélag Reykjavíkur og Jötnar í meistaraflokki karla. Leikurinn hefst klukkan 20.00. SR-ingar hafa einungis tapað einum leik fram að þessu og ætla sér án nokkurs vafa að bæta þremur stigum í safnið. Með sigri munu SR-ingar, sem nú eru í þriðja sæti, jafna Víkinga að stigum og eiga leik til góða á þá. Björninn er hinsvegar í efsta sæti 9 stigum á undan SR-ingum sem eiga fjóra leiki til góða á þá. Jötnar gerðu harða atlögu að Birninum í síðasta leik og litlu mátti muna að þeri næðu að stela af þeim stigum.
Um helgina verður síðan spilaður fyrsti hluti íslandsmótsins í 4. flokki. Mótið fer fram í Skautahöllinni í Laugardal og má sjá dagskrá þess hér. 4. flokkur hefur fyrr á þessu tímabili spilað helgarmót en þá var um svokallað bikarmót að ræða sem telur ekki til stiga í íslandsmóti.
Hokkíhelgi lýkur svo á sunnudagskvöldi með leik Skautafélags Reykjavíkur og Ynja í meistaraflokki kvenna. Norðanstúlkur hafa á þessu tímabili borið höfuð og herðar yfir hin liðin og kanski ekki líklegt að það breytist á næstunni. SR-ingar rétt einsog Björninn er í uppbyggingarstarfi og það starf tekur tíma. Í umfjöllun um leik SA-Ásynja og SR sem leikinn var um 28.10.11 kom fram að Guðbjörg Grönvold hefði skorað mark SR-inga. Dómari hefur nú leiðrétt skýrsluna og réttur markaskorari er Bára Einarsdóttir. Þetta er jafnframt hennar fyrsta mark í leik með meistaraflokk.
HH