Á morgun hefst hokkítímabilið og að þessu sinni eru það meistaraflokkur karla og kvenna sem ríða á vaðið. Leikið verður á Akureyri en í meistaraflokki karla mætast Víkingar og Björninn og hefst sá leikur klukkan 16.30. Strax að þeim leik loknum leika lið Valkyrja og Bjarnarins.
Að þessu sinni eru fimm lið skráð til keppni í meistaraflokki karla, þ.e. Skautafélag Reykjavíkur, Víkingar, Jötnar, Björninn og Húnar.
Einsog kom fram í frétt hér fyrr í vikunni hafa bæði lið orðið fyrir nokkurri blóðtöku hvað leikmenn varðar frá síðasta tímabili. Heimamenn í Víkingum hafa misst þrjá leikmenn, þá Jón B. Gíslason, Ingólf Frey Elíasson og Jóhann Leifsson og munar um minna. Bjarnarmenn hafa einnig mátt sjá á eftir leikmönnum þar sem Róbert Freyr Pálsson og Vilhelm Bjarnason eru farnir úr vörninni og Gunnar Guðmundsson, Úlfar Jón Andrésson og Arnar Bragi Ingason úr sókninni. Birkir Árnason sem lék á árum áður með SA mun hinsvegar leika með Bjarnarmönnum í vetur ásamt því að Sergei Zak mun leika með liðinu. Bjarnarmenn hafa einnig misst og fengið markmann, Snorri Sigurbergsson leikur í Svíþjóð þennan veturinn en Styrmir Snorrason er hinsvegar kominn aftur heim. Bjarnarmenn hafa einnig fengið nýjan þjálfara Dave MacIsacc og verður fróðlegt að sjá hvort og hvaða breytingar hann mun koma með til liðsins.
Minni breytingar hafa orðið hjá konunum. Rétt einsog í fyrra eru fjögur lið skráð til keppni en þau eru: Valkyrjur, Björninn, Ynjur og Skautafélag Reykjavíkur.
Í lið Valkyrja er komnar aftur á ísinn Patricia Ryan, Vigdís Aradóttir, Jónína Guðbjartsdóttir, Sólveig Smáradóttir og Jóhanna Sigurbjörg Ólafsdóttir en Katrín Ryan mun hinsvegar ekki leika með liðinu í vetur. Hjá Bjarnarstelpum er hinsvegar kominn nýr þjálfari, Richard Tahtinen, sem er íslensku íshokkílífi að góðu kunnur. Hanna Rut Heimisdóttir sem hefur verið áberandi hjá liði Bjarnarins undanfarin ár mun ekki leika með liðinu í fyrstu leikjum þess þar sem hún er að jafna sig að meiðslum en heyrst hefur að góð mæting sé á æfingar svo liðið gæti vel bætt í þegar líður á veturinn.
Mynd: Sigurgeir Haraldsson
HH