Heimsmeistaramót kvenna í íshokkí í 2.deild riðli b er hafið og fer mótið fram í Skautahöllinni á Akureyri. Landslið Nýja Sjálands, Tyrklands, Rúmeníu, Mexico og Spánar voru að týnast til Íslands fyrir helgina og er spennan og eftirvæntingin mikil hér á Akureyri.
Mjög mikilvægt er að fólk mæti í Skautahöllina á Akureyri á leiki Íslenska liðsins sem hefjast allir kl 20:00. Næsti leikur er í kvöld, þriðjudag og er mótherjarnir frá Mexico. Á fimmtudaginn 2. mars er svo leikur á móti Tyrklandi, föstudaginn 3. mars er leikið á móti Nýja Sjálandi og svo er lokaleikur mótsins á sunnudagskvöld þegar íslenska liðið tekur á móti Spáni.
Íslenska kvennalandsliðið byrjaði vel í gærkvöldi þegar liðið vann stórsigur á Rúmeníu, 7:2.
Yfirburðir Íslands á móti Rúmenum voru algjörir og staðan var 3:0 strax að loknum fyrsta leikhluta og í öðrum hluta bætti íslenska liðið við fjórða markinu. Tvö mörk Rúmena í þriðja og síðasta leikhluta komu ekki að sök því Ísland bætti við þremur í viðbót og vann fimm marka sigur, 7:2.
Diljá Björgvinsdóttir var valin besti leikmaður íslenska liðsins í fyrsta leiknum.
Silvía Rán Björgvinsdóttir skoraði tvö marka Íslands og þær Birna Baldursdóttir, Flosrún Vaka Jóhannesdóttir, Kristín Ingadóttir, Karen Þórisdóttir og Sunna Björgvinsdóttir skoruðu eitt mark hver.
Ísland er því með þrjú stig eftir fyrstu umferðina eins og Nýja-Sjáland, sem vann Tyrkland, 5:3, og Mexíkó sem vann Spán 3:1.
Við hvetjum alla til að koma og hvetja landslið Íslands, sjáumst í Skautahöllinni á Akureyri.