Ég verð að byrja á því að óska okkur öllum til hamingju með að strákarnir okkar eru búnir að vinna sig upp um styrkleikaflokk eða eina deild. En áður en mótið hér í Istanbul hófst var ljóst að þau lið sem leika mundu um gull á mótinu væru búin að tryggja sér rétt til að leika í annarri deild undir 20 ára landsliða að ári.
En þessir drengir sem ég er búin að vera að kynnast síðustu daga eru ekki búnir að fá nóg. Einn af þessum snillingum kom til mín í dag og sagði „ Viddi ég held að liðið heima þurfi á því að halda að við vinnum gull hér í Istanbul, það er búið að vera allt of mikið af bulli um það að við séum eitthvað vonlaust lið heima á klakanum“ og hvað villt þú gera í því sagði ég? „Ég vill vinna alla leikina“ svaraði hann. Af hverju? Spurði ég. Fólkið heima þarf að fá þetta sama kikk og ég þegar ég sé fánann okkar lyftast og þjóðsönginn glymja, við eigum ekki að skammast okkar fyrir að vera íslendingar, mér finnst það geðveikt“. Mér líka var það eina sem ég gat sagt eftir þessa hjartnæmu ræðu.
Leikurinn í kvöld var harður og tók sinn toll. Gunnar Darri var komin með flensu, Hilmar var líka slappur og var settur í hvíld. Í fyrsta leikhluta var það Róbert Pálsson sem braut ísinn og skoraði mark eftir tæpar þrjár mínútur. Jói Leifs bætti síðan við öðru marki og við vorum með 2-0 forystu eftir fyrsta leikhluta.
Matthías Máni skoraði síðan mark á þriðju mínútu annars leikhluta og 4 mínútum síðar skoraði kappinn alveg ótrúlegt mark með mann í bakinu og við á bekknum héldum að hann væri komin afturfyrir mark andstæðinganna, nei ekki alveg hann smellti einu með bakhöndinni og ég get svarið að ég hélt að þetta væri ekki hægt. Hornið sem hann átti eftir var ekki nema svona 2 til 3°, en þegar kappinn skoraði þetta trúlega mark var einn Nýsjálendingur í bakinu á honum og hrinti honum í ramman ansi harkalega þannig að hann skall með hnéð í rammann harkalega.
Björn læknir þurfti að setja kalda bakstra á hnéð á Mána og athuga vel hvort að hann hefði orðið fyrir meira hnjaski.
Í þriðja leikhluta bættum við ekki við mörkum heldur héldum haus og sýndum enn og aftur að við stjórnuðum þessum leik. Leiknum lauk með okkar sigri 4-0, andfætlingarnir áttu aldrei séns.
Egill Þormóðsson var valinn maður leiksins, en hann hefur verið að spila mjög vel á mótinu. En eins og í fyrri leikjum var þetta sigur liðsheildarinnar allrar. Frábær samstilltur hópur.
Nánari tölulegar upplýsingar um leikinn og riðilinn okkar er að finna á vef Alþjóða Íshokkísambandsins. Eða hér til hliðar með því að smella á rauða letrið HM U20
Nýjar myndir bættust við eftir daginn á þessari slóð.