14.01.2011
Eftirfarandi hefur borist frá dómaranefnd.
Borið hefur á að einhverjir leikmenn í öllum flokkum finni hjá sér þörf til að tjá sig við dómara um dóma eða önnur mál á meðan á leik stendur, dómaranefnd telur rétt að minna leikmenn og aðra þáttakendur í leikjum innan ÍHÍ á reglur um samskipti við dómara í leik.
Almennt er leikmönnum óheimilt að mótmæla eða gera athugasemdir við dómgæslu á meðan á leik stendur en samkvæmt reglu 550b skal leikmaður sem mótmælir eða gerir athugasemdir við dómgæslu hvaða dómara sem er á meðan á leik stendur hljóta Áfellisdóm (Misconduct) og ef hann heldur áfram uppteknum hætti skal hann hljóta Brottvísun úr leik (Game Misconduct), þetta á við um alla dómara á leiknum, þ.m.t. línudómara og markadómara.
Samkvæmt reglu 201 skal vera einn fyrirliði (captain) og ekki fleiri en tveir aðstoðar fyrirliðar (assistant captain) á leikskýrslu, þeir skulu vera merktir með stöfunum C fyrir fyrirliða og A fyrir aðstoðar fyrirliða með 8 cm háum stöfum framan á leikmannstreyju sinni.
Á ísnum mega aðeins þessir leikmenn með leyfi dómara, svo lengi sem þeir séu ekki að hljóta eða taka út refsingu, bera upp spurningar um túlkunaratriði á leikreglum sem gætu komið upp á meðan á leik stendur. Fáist ekki leyfi frá dómara til að spyrja út í leikreglur hafa fyrirliðarnir og aðstoðarmenn þeirra ekki heimild til að ræða við dómara. Kvartanir yfir dómgæslu eða einstökum dómum eru ekki atriði sem tengjast túlkun á leikreglum og skal vera refsað með Áfellisdómi (Misconduct) samkvæmt reglu 572.
Regla 572:
Komi fyrirliði eða aðstoðar fyrirliði til að kvarta yfir dómi, hvort sem hann var á ísnum eða kemur af leikmannabekk skal hann hljóta Áfellisdóm (Misconduct).
Óþarfa fundarhöld og umræður á meðan á leik stendur gagnast engum og gera lítið annað en að tefja leikinn og gera hann leiðinlegri fyrir áhorfendur.
Dómurum innan ÍHÍ verður gert að framfylgja þessum reglum og má búast við því að þeim verði beitt í komandi leikjum sé þess þörf.