Leikurinn gegn Búlgaríu fór því miður ekki eins og vonir stóðu til þrátt fyrir heilt yfir góðan leik hjá strákunum. Íslenska liðið stjórnaði leiknum lengst af en það dugði því miður ekki til sigurs að þessu sinni. Lið Búlgara var mjög vel skipulagt og markvarslan mjög góð. Mótið er að spilast nokkuð með öðrum hætti en búist var við en flest liðin eru áþekk að getu. Tyrkirnir hafa sömuleiðis komið mjög á óvart en þeir voru mættir hingað til Mexíkó viku fyrir mót og hafa því vanist vel þunna loftinu. Strákarnir eru allir hinir hressustu og staðráðnir í því að ná í sigur í næst leik gegn Ísrael á mánudag. Veðurblíðan hefur svo sannarlega leikið við hópinn undanfarna daga og allir eru hinir hressustu. Það hefur komið fararstjóra skemmtilega á óvart hvað allir leikmenn liðsins nálgast þetta verkefni af fullkomri virðingu og góðri háttsemi og hafa frá fyrstu mínútu verið landi og þjóð til sóma. Nú er bara að ná í fyrsta sigurinn.
Bestu kveðjur frá okkur öllum.
Arnar Þ. Sveinsson fararstjóri