Bjarki Reyr Jóhannesson hefur verið valinn íshokkímaður ársins 2021 af stjórn Íshokkísambands Íslands.
Bjarki Reyr hefur leikið með Skautafélagi Reykjavíkur allan sinn feril og er þar fyrirliði í meistaraflokki karla. Bjarki hefur átt fjölda marka í vetur auk stoðsendinga. Hann er burðarásinn í öllum leikjum SR, tekur virkan þátt í öllum æfingum og er fyrirmynd margra yngri iðkenda.
Bjarki Reyr hefur átt sæti í landsliðum Íslands til fjölda ára, fyrst árið 2011 með landsliði U18 og svo í kjölfarið U20 og nú hin síðari ár hefur hann átt fast sæti í A-landsliðinu. Bjarki Reyr er þekktur fyrir vinnusemi, hann er traustur liðsfélagi og án efa einn af okkar bestu íshokkíleikmönnum fyrr og síðar.
Íshokkísamband Íslands óskar Bjarka innilega til hamingju með árangurinn.