Kristín Ingadóttir hefur verið valin íshokkíkona ársins 2021 af stjórn Íshokkísambands Íslands.
Kristín hefur átt mjög góðan feril að baki. Hún byrjaði ung að árum eða 5 ára árið 2001 að spila með Birninum og hefur spilað með því liði nánast allan sinn feril. Svíþjóð fékk að njóta hæfileika hennar tímabilið 2019-2020 en þá spilaði hún í næst efstu deild þar í landi með liðinu Färjestad BK. Að því loknu hélt hún aftur heim til að ljúka námi og hefur verið einn af sterkustu leikmönnum Fjölnis síðan.
Kristín hefur haft gríðarlega mikil áhrif á íshokkí kvenna hér á landi með metnað sínum, framkomu, dugnaði og hæfileikum. Hún hefur verið máttarstólpi í liði Fjölnis og verið einn sterkasti leikmaður Reykjarvíkurliðanna.
Kristín hefur einnig átt glæstan feril með íslenska kvennalandsliðinu í íshokkí þar sem hún hefur á seinni árum verið ein af fyrirliðum þess. Fyrsti leikur hennar með landsliðinu var á Spáni árið 2013 þar sem hún skoraði sitt fyrsta mark, í sínum fyrsta leik fyrir þjóðina í sinni fyrstu skiptingu.
Kristín er snögg, teknísk, dugleg og hvetjandi leikmaður sem gefst aldrei upp og er öðrum góð fyrirmynd. Hún er ein af þeim leikmönnum sem standa alltaf fyrir sínu hvort sem það er með kvennalandsliði Íslands eða heimaliði sínu.
Íshokkísamband Íslands óskar Kristínu Ingadóttur innilega til hamingju með árangurinn.