Dómarar til Danmerkur

Á morgun fara þeir Helgi Páll Þórisson og Jón Heiðar Rúnarsson til Danmerkur í þeim erindagjörðum að dæma tvo leiki.  Helgi verður aðaldómari og Jón línumaður.  Þetta verður í fyrsta skiptið sem íslenskir dómarar láta að sé kveða á erlendri grundu og mikilvægt skref í átt að bættri þjálfun dómara.  Okkar menn munu með þessu öðlast dýrmæta reynslu með því að dæma í nýju umhverfi og undir umsjón fulltrúa frá danska íshokkísambandinu.
 
Leikirnir sem þeir koma til með að dæma fara fram á laugardag og sunnudag.  Á laugardag dæma þeir leik á milli sænska U16 liðsins Rödovre og Kristianstad en á sunnudeginum leik á milli U19 liða Hvidovre og Frederikshavn.  Það mun því mikið mæða á okkar mönnum um helgina en þeir fara utan fullir sjálfstrausts.
 
Þessi ferð er liður í dómaraskiptakerfi á milli íslenska og danska íshokkísambandsins en síðar í vetur munu fleiri dómarar og línumenn fara til Danaveldis í sömu erindagjörðum.