Alþjóða íshokkísambandið (IIHF) hefur boðið sjö dómurum Íshokkísambands Íslands (ÍHÍ) að taka þátt í dómgæslu á heimsmeistaramótum IIHF þetta tímabilið.
Óli Þór Gunnarsson, Sindri Gunnarsson, Leon Hafsteinsson, Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir, Sæmundur Þór Leifsson, Ingibjörg G. Hjartardóttir og Vilhelm Már Bjarnason fengu boð um þátttöku en því miður þá verður Vilhelm upptekinn á þeim tíma sem hann fékk úthlutað og kemst því ekki að sinni.
Aldrei fyrr í sögu íshokkí á Íslandi hafa jafnmargir íslenskir dómarar tekið þátt í heimsmeistaramótum IIHF á einu keppnistímabili.
Um árabil hafa 1-2 íslenskir íshokkídómarar farið á erlend stórmót og er það mat dómaranefndar IIHF að íslenskir dómarar séu vel að þessu verkefni komnir, enda hafa íslenskir dómarar sýnt það í verki að þeir standast allar þær kröfur IIHF sem gerðar eru til alþjóðlegra dómara.
Í umsögn IIHF um íslenska dómara er nefnt sérstaklega að þekking okkar fólks á regluverkinu sé mjög góð ásamt góðum leikskilning, afburða skautatækni og góðu líkamlegu atgervi.
Einnig má þakka Afrekssjóði Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands um þá fjárveitingu sem ÍHÍ fær á ári hverju til endurmenntunar dómara.