Dagur 4 í Tallinn

Liðsfundur
Liðsfundur

Dagur 4 í Tallinn

Dagurinn í dag var rólegri en hingað til þar sem ekki var spilaður neinn leikur í dag.  Við höfum því getað safnað kröftum fyrir átökin á morgun. Dagskráin var nú samt sem áður nokkuð þétt. Morgun matur í seinni kantinum eða kl. 9:30. Í hádeginu var okkur boðið í stutta skoðunarferð í TV Tower.  Sem eins og nafnið gefur til kynna er loftnetsturn. Turninn sjálfur er 314 metrar á hæð en ekki er hægt að komast ofar in um 180 metra nema að klifra. Nýliðarnir fengu að sjálfsögðu það verkefni að klirfa upp á topp.  Nei nei, það var nú ekki raunin. (Mæður þið getið andað léttar) En útsýnið var glæsilegt í heiðskýru veðri.

Að þessu loknu rendum við á klukkutíma æfingu þar sem Villarnir héldu áfram að slípa liðið saman. Í kjölfarið var svo kvöldmatur á hótelinu.

Klukkan 20:00 var svo videófundur þar sem leikurinn við Kína var krufinn til mergjar. Það sýndi sig að strákarnir áttu í raun og veru ágætis leik nema síðustu 8 mínúturnar í fyrsta leikhluta, þar sem við fengum á okkur 6 mörk. Þjálfararnir útskýrðu vel hvað betur hefði mátt fara og einnig hvað vel var gert. Við vitum að þeir geta betur og ég er sannfærður um að þeir ætla sér meira.

Eftir videófundinn var svo skemmtikvöld. Þar kom berlega í ljós að þessir drengir eru gæddir mörgum öðrum hæfileikum en íshokkí. Þar sungu menn ásamt því að rappa og tveir þeirra stigu dans, já eða stigu allavegana einhver spor.
Það er allavegana á hreinu að hópurinn nær mjög vel saman og skemmti sér konunglega.

Ég hef beðið strákana um að bæta ykkur foreldrum inn á Facebook síðu hópsins.  Þið hafið fullt leyfi til þess að bæta vinum og ættingjum inn á þá síðu ef þið kærið ykkur um það.
Ég skutla inn myndum af þeim af og til inn á þá síðu.  Þar setjum við líka inn dagskrá hvers dags fyrir sig og strákarnir eiga það til að setja inn eitthvað efni þar líka.
Þið megið svo endilega senda kveðjur til okkar og hvetja strákana áfram.

Þið getið líka nálgast myndir úr leikjunum hér http://www.iihf.com/competition/372/

Hef þetta ekki lengra að sinni. Meira síðar.

Kv, Árni Geir