Dagur 3 og 4.
Í gær var dagurinn tekinn af hörku. Vaknað snemma, morgunmatur, æfing, slökun og svo leikur þar sem stelpurnar okkar spiluðu við Ástralíu.
Fyrsti leikhlutinn fór af stað með stæl og þær náðu að skora 3 mörk í fyrsta leikhluta. Þetta stefndi í skemmtilegan markaleik en neeeiii, þær ákváðu að taka þetta aftur svona pínu „erfiða“ leið. Ekkert annað mark var skorað í leiknum en Áströlsku stelpurnar héldu Karitas vel heitri í markinu allan tímann. Þarna sá maður greinilega af hverju hún er kölluð „kolkrabbinn“ í markinu. Hún var hreint mögnuð og að sjálfsögðu valinn „maður leiksins“ fyriri íslands hönd. Eins og staðan er núna þá er hún með 98,58% markvörslu eða 71 skot á sig og 1 mark. En altsvo, leikurinn fór 0-3 fyrir Íslandi.
Í dag var hvíld og því fengu stelpurnar að sofa til rúmlega 9 en þá var morgunmatur. Um 10 fóru 5 þeirra aftur í heimsókn í grunnskóla hér til að spjalla við krakkana þar um land og þjóð. Höfðu þær mjög svo gaman af. Svo var bara rólegheit og slökun hjá öllum nema „busunum“ okkar sem fengu sín verkefni fyrir daginn en svo var æfing rúmlega fjögur. Eftir æfingu skelltu þær sér í Spa og mættu hressar og kátar í kvöldmat á eftir.
Þær eru allar sem ein svo skemmtilega stemmdar að þær eru vísar til alls.
Nú treystum við á ykkur sem heima sitjið, að þið sendið þeim góða strauma og fylgist með þessum snillingum á netinu.
María Stefánsdóttir - fararstjóri