Dagur 2.
Í morgun var ræs og smá morgunmatur um kl 6.30. Strax eftir morgunmat var rölt af stað í höllina og æfing 07.15 í klukkutíma. Eftir æfinguna var það góður morgunmatur hér á hótelinu og Sarah og Anna Sonja tóku línufundi með þeim. Um kl.11 var lagt af stað í höllina og þær gerðu sig klárar í fyrsta leikinn sinn sem var jafnfram fyrsti leikur mótsins.
Þessir snillingar ákváðu að fara lengri leiðina í leiknum en hann fór 0-0, 1-0 (mark af íslandi dæmt af), 0-1 þannig að leikurinn fór í framlengingu þar sem ekkert mark var skorað. Þær mössuðu þetta svo að sjálfsögðu í vítakeppni og var þungu fargi létt af bæði leikmönnum og þjálfurum sem allar sungu svo af innlifun þjóðsönginn (sjá FB-síðu landsliðsins).
Silvía Björgvins átti öll mörkin í leiknum í dag, en þetta er hennar fyrsta ferð með landsliðinu þannig að hún byrjar af hörku. Jónína var valin leikmaður leiksins fyrir íslands hönd og er hún vel að því komin.
Í kvöld var svo haldið á opnunarhátíð mótsins og horfðum við á fyrsta leikhlutann í leik Spánar og Ástralíu en þá var haldið heim á leið og kvöldmatur kl. 21.30 og svo bara beint í ró.
María Stefánsdóttir - fararstjóri.