Myndir mótshaldara má sjá hér - flipi sem heitir Pictures.
Fimmtudagur 4.apríl
Íslenska liðið kom mjög vel undirbúið til leiks í gær, allar í gallanum tilbúnar að takast á við þetta erfiða verkefni, Króatíska liðið. Þær áttu góðan leik en þær Króatísku voru betri í byrjun náðu að skora 3 mörk áður en við komumst á blað. Eftir því sem leið á leikinn sótti okkar lið í sig veðrið en náði ekki að vinna upp forskotið. Stelpurnar okkar áttu margar í erfiðleikum vegna háfjallaveiki, ein þurfti að fá súrefni eftir annan leikhluta og önnur eftir leikinn. Allar voru þær með mikinn höfuðverk á eftir. Vonandi fara þær að komast yfir þetta, því það er ljóst að þetta hefur áhrif á gang leikjanna hér.
Sarah Smiley var valin maður leiksins í íslenska liðinu en hún skoraði 3 mörk og átti eina stoðsendingu. Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir skoraði eitt mark og átti líka eina stoðsendingu. Guðlaug sýndi fín tilþrif í markinu og hápunkturinn var er hún varði víti við mikinn fögnuð liðsins síns. Allar sýndu mikla þrautsegju og baráttuanda þegar, eins og Hulda aðstoðarþjálfari komst að orði: „ég leit yfir bekkinn og sá liðið hrynja niður eins og flugur“.
Mörk/stoðsendingar
Sarah Smiley 3/1
Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir 1/1
Varin skot: 34
Refsingar: 16 mínútur
Króatíska liðið fékk 10 mínútur í refsingar og markvörður þeirra varði 22 skot.
Nánari upplýsingar um mótið má finna á heimasíðu mótshaldara, þar sem meðal annars er bein atvikalýsing og svo leikskýrslan sjálf.
Þriðji leikur liðsins verður gegn Suður-Kóreu í dag, fimmtudag, og hefst hann kl. 14.30 að íslenskum tíma.
Guðrún Blöndal heldur þrumandi peppræðu yfir liðinu fyrir leikinn
Sarah Smiley þrykkir pökknum í netið yfir markmann Króata
Fögnuður yfir markinu
Guðlaug markmaður ver víti Króata