Dagbók fararstjóra - 1

Á æfingu - Lars þjálfari leggur línurnar
Á æfingu - Lars þjálfari leggur línurnar

Landslið kvenna á HM IIb Puigcerda, Spáni

Föstudagur 29.mars. Stelpurnar okkar byrjuðu á æfingaprógrammi og spiluðu æfingarleik á Akureyri. Æfingabúðirnar gengu ekki slysalaust fyrir sig, Steinunn meiddist í upphitun og fékk nokkur spor á sköflunginn á FSA. Við vonumst til að þar með sé sá kvóti fullnýttur í þessari ferð. Eitthvað var um lasleika af ýmsu tagi við brottför,sem var smá áhyggjuefni fararstjórnar en sjúklingar hörkuðu af sér og lagt var stundvíslega af stað frá Skautahöllinni á Akureyri. Lars þjálfari lagði fyrir stelpurnar að vera nú duglegar að drekka vatn, sem þær að sjálfsögðu gerðu, sem leiddi til þess að stoppað var í hverri einustu sjoppu á leiðinni suður til að létta á blöðrunni og bæta á sig næringu og vökva. Komumst þó á réttum tíma til Reykjavíkur þar sem kvöldmatur var innbyrtur. Áfram hélt ferðalagið til Keflavíkur þar sem áformað var að gista. Eitthvað hafði ekki skilað sér rétt í herberjabókun svo það vantaði rúm fyrir tvo liðsmenn en því var snarlega kippti í liðinn með dýnum á gólf í tvö herbergin, þar sem fullbókað var á gistiheimilinu og allir sofnuðu sáttir og mátulega dasaðir.

Laugardagur 30.mars.
Ræs kl. 5, morgunverður og liðið ferjað í þrennu lagi upp á flugvöll með allt sitt hafurtask. Þar bættust Reykjavíkurstúlkur í hópinn, vel gekk að tékka inn og við flugum í fylgd Forseta Íslands til London. Þar þurftum við að taka töskurnar og tékka aftur inn.  Aðeins var lagfært í farangrinum til að spara yfirvikt og sluppum við með að borga bara aukalega fyrir kylfutöskuna og tækjaboxið. Þegar allir farþegar voru komnir um borð í vélina til Barcelona var tilkynnt um að nauðsynlegt væri að skipta um dekk á nefhjólum, við vorum tjökkuð upp og brottför tafðist um klukkutíma.

Í Barcelona tók langan tíma að bíða eftir töskunum þar sem flestar hokkítöskurnar höfðu farið í „special luggage“ en allt skilaði sér að lokum og við héldum af stað áleiðis á lokaáfangastað. Þessar tafir gerðu það að verkum að við misstum af því að horfa á hokkíleik sem okkur hafði verið boðið á. Fyrsta stopp í Puigcerda var skautahöllin þar sem allar hokkítöskur voru tæmdar í búningsklefann og síðan beið okkar kvöldmatur á hótelinu , sem er við hliðina á höllinni  Það var þreyttur og slæptur hópur sem skreið upp í rúm langt eftir miðnætti.

Sunnudagur 31.mars – Páskadagur
Morgunverður kl.8.30 og athugið að tíminn var færður á sumartíma í nótt sem stytti svefntímann okkar um klukkustund, erum við nú tveimur tímum á undan Íslandi. Farið var í fínan göngutúr í dásamlegu veðri og undurfallegu umhverfi. Eins og við er að búast á Spáni þá skín sól hér en hitastig er sama og við erum vön heima. Síðan tók við upphitun og æfing á ís í klukkutíma, gekk bara vel. Nokkuð er um spurningar og reddingar með hitt og þetta eins og við er að búast en heilt yfir fer þetta bara vel af stað hjá okkur, aðbúnaður er góður og það stefnir í að þessi keppni verði hin ánægjulegasta upplifun. Restin af deginum í dag fer í fundarhöld, hvíld og hópefli. Á morgun hefst alvara lífsins en fyrsti leikur er kl. 13.00 að staðartíma við Suður Afríku. Hér verður hægt að fylgjast með framgangi leikja: http://www.iihf.com/competition/338/statistics.html.

kvennalid_hm_2013

kvennalid_hm_2013

kvennalid_hm2013

kvennalid_hm2013