Continental Cup - SA Víkingar komnir til Riga

SA Víkingar eru komnir til Riga og taka þátt í annarri umferð í Evrópukeppni félagsliða, eða Continental Cup.  

  • Fyrsti leikur SA Víkinga er á föstudaginn 19. október. Mótherji Kurbads Riga
  • Annar leikur SA Víkinga er á laugardaginn 20. október. Mótherji  HC Donbass
  • Þriðji leikur SA Víkinga er á sunnudaginn 21. október . Mótherji  Txuri Urdin San Sebastian

Nánari upplýsingar og framvinda riðilsins má finna á vef Alþjóða Íshokkísambandsins.

Continental Cup

Hér að neðan er úrdráttur úr frétt sem birtist á heimasíðu Skautafélags Akureyrar þann 2. október.

Afrek SA Víkinga hefur ekki farið leynt en erlendir miðlar hafa verið duglegir að fjalla um þetta óvænta ævintýri Víkinga og margir lofsamað leik liðsins. Fréttin „Vikings rising“ er til að mynda forsíðufréttinn hjá Alþjóða Íshokkísambandinu og „SA Akureyri triumphs“ in Sofia er forsíðufréttin á Eurohockey.com. Í fréttunum kemur meðal annars fram að frammistaða Víkinga hafi verið tilkomumikil og þá er einnig viðtal við Jussi Sipponen þjálfara liðsins sem skýrir ástæðu þessarar velgengni og segir að sterk liðsheild og gott skipulag hafi gert gæfumuninn. Hann segir einnig að sigur í riðlinum hafi í raun komið honum sjálfum og öðrum leikmönnum liðsins í opna skjöldu. Ekki var búið að gera ráð fyrir þessu hvorki í mótaskrá íshokkísambandsins né í einkalífi leikmanna svo næsta skref sé að kanna hvort það sé í rauninni mögulegt fyrir liðið yfir höfuð að manna næsta verkefni og þá tekið þátt í næstu umferð áður en lengra verður haldið.

Það er ljóst að róðurinn verður erfiður í næstu umferð þar sem bæði Lettland og Úkranía eru stórþjóðir í íshokkíheiminum en Lettland er A þjóð og spilar á meðal 12 bestu íshokkíþjóða í heiminum. Landslið Lettlands vann til að mynda Finland nýlega á heimsmeistaramóti og gerði jafntefli við Kanada. Kurbads Riga er næst besta félagsliðið í Lettlandi en Víkingar sleppa sem betur fer við að mæta því besta þar sem það spilar í súperdeildinni KHL í Rússlandi. Kurbas Riga er þó ekki mikið minni biti þó það sé einungis skipað heimamönnum. Margir leikmenn liðsins eru heimsþekktir íshokkíleikmenn og liðið þarf því enga erlenda styrkingu þar sem flestir leikmenn liðsins hafa spila í stærstu deildum heims eins og NHL, KHL, SHL, AHL og í flest öllum efstu deildum Evrópu. Núverandi leikmannahópur er með yfir 1300 leiki í rússnesku KHL, 483 AHL leiki, 14 NHL leiki og 263 heimsmeistaramóts leiki með Lettlandi í efstu deild. HC Donbass frá Úkraníu spilaði sjálft í KHL deildinni á árunum 2012-2014 og er einnig með stórskotalið í ár. Txuri-Urdin San Sebastian er minna þekkt lið og er eina liðið sem Víkingar ættu að geta staðið jafnfætis við fyrirfram.

Hvað sem þessu líður þá verður afrekið að sigra í fyrstu umferð Evrópukeppninnar í fyrstu tilraun liðsins ekki tekið af Víkingum. Liðin sem Víkingar mættu í  Sófíu voru ekki bara bestu félagslið þjóðanna og með fjölmarga landsliðmenn heldur voru þau einnig drekhlaðinn af erlendum leikmönnum. Búlgaría, Tyrkland og Ísrael eru allar vinaþjóðir Rússlands og því auðvelt fyrir liðin að styrkja sig úr risastórri leikmannapúlíu Rússlands. Lið SA Víkinga er hinsvegar einungis með 3 erlenda leikmenn en uppistaðan í liðinu eru uppaldir íslenskir leikmenn og þar að auki nokkrir gamlir SA leikmenn sem voru hættir en tóku fram skautanna til þess að hjálpa liðinu í þessu erfiða verkefni. Það má því segja að afrekið er stórt en mikilvægast er reynslan sem liðið fær úr Evrópukeppninni. Ungu leikmennirnir fá þarna tækifæri til að spila við leikmenn sem hafa langa reynslu af atvinnumennsku og því frábær áskorun að fá að máta sig við þá.