Björninn - Víkingar umfjöllun

Frá leik liðanna fyrr í vetur                                                                              Mynd: Sigurgeir Haraldsson

Í gærkvöld léku Björninn og Víkingar í meistaraflokki karla og fór leikurinn fram í Egilshöll. Leiknum lauk með sigri Víkinga sem gerðu sex mörk gegn einu. Stigin sem voru í boði að þessu sinni voru mikilvæg báðum liðum og því mátti búast við að bæði lið gæfu allt sitt í leikinn.


Fyrsta lotan gaf líka til kynna að svo yrði  en að henni lokinni var staðan 1 – 2 Víkingum í vil. Steinar Grettisson kom Víkingum yfir fljólega í leiknum en norðanmenn voru allan leikinn töluvert sókndjarfari en heimaliðið. Bjarnarmenn nýttu sér hinsvegar á áttundu mínútu að vera manni fleiri á svellinu en það var Mika Moilanen sem jafnaði fyrir þá metin. Adam var þó ekki lengi í Paradís því skömmu síðar tóku Víkingar aftur forystuna með marki frá Birni Má Jakobssyni og staðan 1 – 2 gestunum í vil og leikurinn galopinn.

Segja má að úrslitin hafi hinsvegar ráðist í annarri lotu. Um miðja lotuna jók Andri Freyr Sverrison muninn fyrir Víkinga. Það var síðan á síðustu mínútum lotunnar sem virkilega fór að halla undan hjá Bjarnarmönnum því þá gerðu Víkingar tvö mörk á innan við hálfri mínútu og breyttu stöðunni í 1 – 5. Fyrra markið átti Sigurður Reynisson og það síðara Sigmundur Sveinsson.

Segja má að þriðja lotan hafi borið þess nokkur merki að staða gestgjafanna var orðin erfið. Eitt mark var skorað og það gerði Stefán Hrafnsson þegar lítið lifði leiks.

Mörk/stoðsendingar Björninn:

Mika Moilanen 1/0
Birkir Árnason 0/1
Birgir Jakob Hansen 0/1

Refsingar Björninn: 12 mínútur.

Mörk/stoðsendingar Víkingar:

Andri Freyr Sverrisson 1/1
Stefán Hrafnsson 1/1
Björn Már Jakobsson 1/0
Steinar Grettisson 1/0
Sigurður Reynisson 1/0
Sigmundur Sveinsson 1/0
Rúnar F. Rúnarsson 0/2
Andri Már Mikaelsson 0/2
Lars Foder 0/1

Refsingar Víkinga: 18 mínútur.

HH