Björninn - SA Víkingar umfjöllun

Björninn bar í gærkvöld sigurorð af SA Víkingum í Hertz-deild karla með fimm mörkum gegn fjórum í hörkuleik sem fram fór í Egilshöll.

Bjarnarmenn byrjuðu leikinn með miklum látum og komust í 3 – 0 á fyrstu átta mínútum leiksins en tvö markanna komu þegar Bjarnarmenn voru einum færri á ísnum. Ryley Egan átti tvö markanna og Eric Anderberg eitt. Víkingar náðu að minnka muninn með marki frá Birni Má Jakobassyni en lokaorðið átti Charles Willams fyrir Björninn á síðustu mínútu lotunnar.
Önnur lotan var öllu tíðindaminni en Sigurður Reynisson, sem að nýju er kominn í lið Víkinga eftir stutt hlé, náði þó að minnka muninn strax í upphafi lotunnar.
Þriðja og síðasta lotan var svo æsispennandi en spilandi þjálfari Víkinga, Jussi Sipponen minnkaði muninn í eitt mark þegar um fimm mínútur lifðu leiks.  Rétt mínútu síðar náðu Bjarnarmenn skyndisókn og Ryley Egan fullkomnaði þrennu sína og kom Birninum aftur í tveggja marka forskot. Undir lokin drógu Víkingar markmann sinn af velli og bættu í sóknina. Bjarnarmenn misstu stuttu síðar mann í refsiboxið og var refsað stuttu seinna með marki frá Jussi Sipponen. Lengra komust Víkingar hinsvegar ekki og stigin þrjú voru Bjarnarmanna.

Mörk/stoðsendingar Bjarnarins:
Ryley Egan 3/2
Eric Anderberg 1/3
Charles Williams 1/1
Andri Már Helgason 0/1
Birkir Árnason 0/1

Refsingar Bjarnarins: 6 mínútur

Mörk/stoðsendingar SA Víkinga:
Jussi Sipponen 2/1
Björn Már Jakobsson 1/0
Sigurður Reynisson 1/0

Refsingar Víkinga: 8 mínútur.

Mynd: Gunnar Jónatansson

HH