Björninn og SA léku í gærkvöld 4. leik liðanna í úrslitakeppninni um Íslandsmeistarartitilinn í íshokkí. Leikurinn fór fram í Egilshöll lauk með sigri gestanna úr SA sem gerðu 3 mörk gegn 2 mörkum heimamanna. Með sigrinum tryggðu SA-menn sér oddaleik um titilinn sem fram fer í Skautahöllinni á Akureyri á morgun og hefst klukkan 19.00.
Greinilegt var að spennustig leikmanna í báðum liðum var hátt og taugar þandar og hafði það nokkur áhrif á leikinn í fyrstu lotu. Liðin fóru varlega en sóknarþungi norðanmanna var þó öllu meiri og átti svo eftir að vera allan leikinn. Lotan var á endanum markalaus þrátt fyrir að ekki vantaði spennuna.
Í annarri lotu jókst enn við sóknarþunga norðanmanna en það voru engu að síður Bjarnarmenn sem áttu fyrsta markið. Það skoraði Róbert Freyr Pálsson með góðu skoti og staðan því 1 - 0 Birninum í hag. SA-menn voru hinsvegar fljótir að svara fyrir sig og var þar á ferðinni ungviðið Jóhann Már Leifsson.
Í þriðju lotu hélt baráttan áfram og hún var varla hafin þegar Daði Örn Heimisson kom heimamönnum yfir með marki af stuttu færi eftir skot frá Bergi Árna Einarssyni. Þegar um sjö mínútur voru liðnar jafnaði Sigurður S. Sigurðsson metin fyrir SA með góðu skoti og staðn því orðin jöfn, þ.e. 2 - 2. Það var síðan Josh Gribben sem skoraði markið sem skildi liðin að þegar leik lauk en þá var lotan u.þ.b. hálfnuð.
Mörkin úr leiknum má sjá
næstu tvær vikurnar hér. U.þ.b. 4 mínútur og 30 sekúndur eru liðnar af fréttatímanum þegar fréttin kemur.
Mörk/stoðsendingar Björninn:
Róbert Freyr Pálsson 1/0
Daði Örn Heimisson 1/0
Gunnar Guðmundsson 0/1
Bergur Árni Einarsson 0/1
Guðmundur B. Ingólfsson 0/1
Birgir J. Hansen 0/1
Refsimínútur Björninn: 16 mín.
Mörk/stoðsendingar SA:
Jóhann Már Leifsson 1/0
Sigurður S. Sigurðsson 1/0
Josh Gribben 1/0
Ingvar Þór Jónsson 0/1
Refsimínútur SA: 8 mín
Myndina tók Sigurgeir Haraldsson
HH