Björninn - SA umfjöllun

Björninn og Skautafélag Akureyrar áttust við i Egilshöllinni í gærkvöld. Leiknum lauk með sigri Bjarnarins sem gerði 5 mörk 3 mörkum norðanmanna.
Þrátt fyrir að stórleikur væri hjá landsliðinu í handbolta á sama tíma og leikurinn fór fram mætti töluvert af áhorfendum á leikinn. Þeir fengu að launum dágóða skemmtun og einn af betri hokkíleikjum vetrarins.

Liðin fóru varlega inn í fyrstu lotu þó frumkvæðið væri aðeins SA-manna. Markmennirnir héldu hreinu og kanski má segja að þetta hafi verið byrjunin að því sem koma skildi, þ.e. jöfnum og spennandi leik.

Í annarri lotu fóru hlutirnir hinsvegar að gerast. SA-menn höfðu áfram nokkuð frumkvæði og strax í byrjun lotunnar skoraði Jóhann Már Leifsson mark fyrir þá. Gunnar Guðmundsson jafnaði hinsvegar metin fyrir Björninn með hörkuskoti skömmu síðar. SA-menn áttu hinsvegar næstu tvö mörk en bæði komu eftir fallegt spil SA-manna. Úlfar Jón Andrésson minnkaði hinsvegar muninn fyrir Björninn fyrir leikhlé og staðan því 2 – 3 eftir annan leikhluta.

Bjarnarmenn náðu að komast betur inn í leikinn í þriðju lotu og strax á fyrstu mínútu jafnaði Gunnar Guðmundsson metin fyrir þá. Staðan 3 – 3 og stemmingin á pöllunum rafmögnuð. Bjarnarmenn voru hinsvegar sterkari á endasprettinum. Róbert Freyr Pálsson kom þeim yfir þegar um þrjár mínútur voru til leiksloka. Eftir það freistuðu SA-menn þess að jafna metin með því að taka markmann sinn út af og bæta þess í stað í sóknina. En það bara ekki árangur og þegar 11 sekúndur lifðu leiks fullkomnaði Gunnar Guðmundsson þrennu sína með að skora í autt SA markið.

Bæði lið virðast vera að bæta í leik sinn frá byrjun tímabils. Öll mörk SA-manna komu þegar þeir voru manni fleiri (power play) en einnig náðu þeir að skapa sér ágætis færi þegar jafnt var í liðum. Bjarnarmenn börðust hinsvegar til síðustu mínútu og uppskáru.
Það lýtur því út fyrir að síðustu umferðir í íslandsmótinu verði æsispennandi sem er ekkert annað en frábært fyrir íshokkí á Íslandi.


Mörk/stoðsendingar: Björninn:

Gunnar Guðmundsson 3/1
Úlfar Jón Andrésson 1/2

Róbert Freyr Pálsson 1/1
Hjörtur Björnsson 0/1
Brynjar Þórðarson 0/1
 
Refsimínútur Bjarnarins: 10 mín.

Mörk/stoðsendingar SA:

Josh Gribben 1/2
Sigurður S. Sigurðsson 1/1

Jóhann Már Leifsson 1/0
Rúnar F. Rúnarsson 0/1

Refsimínútur SA: 22 mín

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

HH