Ásynjur sóttu hart að marki Ynja í leiknum

Stórskemmtilegur leikur á Akureyri
Stórskemmtilegur leikur á Akureyri

Í gærkvöld fór fram slagur toppliðanna í Herz-deild kvenna í íshokkí. Leikurinn var ekki jafn spennandi og í fyrri viðureignum þessara liða því fámennt lið Ásynja vann öruggan sigur 8-4.

Ynjur hafa hingað til byrjað leikina gegn Ásynjum af miklum krafti en að þessu sinni voru það Ásynjur sem settu tóninn og yfirspiluðu Ynjurnar strax í fyrstu skiptingu. Það var svo á 7. mínútu leiksins að pressan sem Ásynjur settu á mark Ynja skilaði sér í marki frá Birnu Baldursdóttur. Um mínútu seinna náði Anna Sonja Ágústsdóttir pekkinum af aftasta leikmanni Ynja og slapp ein á móti markmanni og nýtti færið vel og kom Ásynjum í 2-0. Ynjur áttu þó síðasta orðið í fyrstu lotunni þegar Sunna Björgvinsdóttir minnkaði muninn í 2-1.

Ásynjur héldu uppteknum hætti í 2. lotu og skoruðu þegar um 5 mínútur voru liðnar af lotunni. Guðrún Blöndal speglaði þá pekkinum í mark Ynja eftir skot frá varnarmanninum Arndísi Sigurðardóttur. Undir lok lotunnar bættu Ásynjur svo við þremur mörkum í viðbót sem segja má að hafi gert endanlega út um leikinn. Fyrst var það Birna Baldursdóttir sem skoraði með stoðsendingu frá Önnu Sonju Ágústsdóttur en seinna skoraði Guðrún Marín Viðarsdóttir með stoðsendingu frá Birnu Baldursdóttur. Guðrún Blöndal var svo aftur á ferðinni þegar um 20 sekúndur lifðu af lotunni og kom Ásynjum í þægilega stöðu 6-1 fyrir seinna leikhléið.

Í þriðju lotu var greinilegt að Ásynjur misstu aðeins einbeitinguna og hleyptu Ynjum inn í leikinn. Silvía Björgvinsdóttir skoraði fyrsta mark lotunnar fyrir Ynjur, eftir að hafa hirt frákast eftir skot Sunnu Björgvinsdóttur, og minnkaði muninn í 6-2. Fyrirliði Ásynja, Linda Brá Sveinsdóttir svaraði þó fyrir sitt lið örfáum mínútum seinna og Jónína Guðbjartsdóttir fylgdi hennar fordæmi og jóku þær muninn enn frekar í 8-2. Ynjur áttu þó lokaorð leiksins, annars vegar þegar pökkurinn speglaðist í markið af varnarmanni Ásynja þegar sóknarmaður Ynja, Berglind Leifsdóttir, reyndi fyrirgjöf. Hins vegar þegar Sunna Björgvinsdóttir laumaði sér aftur fyrir vörn Ásynja, sem voru manni fleiri á ísnum, og skoraði eftir langa stoðsendingu frá varnarmanninum Ragnhildi Kjartansdóttur. Lokatölur 8-4 Ásynjum í vil og þær ,,gömlu” því komnar með tvo sigra í viðureignum þessara toppliða í vetur en Ynjur með einn sigur og þurfa því að hysja upp um sig all snarlega fyrir síðustu viðureign liðanna í deildarkeppninni sem fer fram þriðjudaginn 10. janúar. Í millitíðinni munu Ásynjur taka á móti Skautafélagi Reykjavíkur í tvíhöfðaleik 7. og 8. janúar í skautahöllinni á Akureyri.

Mörk/stoðsendingar Ásynja:

Birna Baldursdóttir 2/1

Guðrún Blöndal 2/0

Anna Sonja Ágústsdóttir1/4

Guðrún Marín Viðarsdóttir 1/2

Jónína Margrét Guðbjartsdóttir 1/0

Linda Brá Sveinsdóttir 1/0

Alda Ólína Arnarsdóttir 0/1

Arndís Sigurðardóttir 0/1

Eva María Karvelsdóttir 0/1

 

Refsingar Ásynja:

4 mínútur

 

Mörk/stoðsendingar Ynja:

Sunna Björgvinsdóttir 2/1

Silvía Björgvinsdóttir 1/1

Berglind Leifsdóttir 1/0

Hilma Bergsdóttir 0/1

Ragnhildur Kjartansdóttir 0/1

 

Refsingar Ynja:

8 mínútur