Um nýliðna helgi tók kvennaliðið okkar þátt í einum riðli í undankeppni Ólympíuleikanna. Leikið var í Piestany í Slóvakíu. Fjögur landslið Slóvakía, Slóvenía, Kazakstan ásamt Íslandi, spiluðu hvert við annað og einungis efsta liðið hélt áfram í undankeppninni. Fyrirfram var vitað að þetta yrði mikil prófraun fyrir liðið okkar þar sem hin liðin þrjú eru nokkru hærri á heimslista en við. Kasakstan er í 23. sæti, Slóvenía í því 22. og Slóvakía í 16 enda unnu þeir Slóvakar alla leiki sína nokkuð örugglega.
Íslenska liðið hóf keppnina í leik á móti Slóveníu. Teresa Snorradóttir kom okkur yfir á 14 mínútu þegar við lékum í yfirtóku. Slóvenar jöfnuðu svo á sextándu mínútu leiksins. Jafnt eftir fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta komust Slóvenar yfir á 33. mínútu og Silvía Björgvinsdóttir jafnaði leikinn 4 mínútum seinna. Enn allt jafnt eftir 2. leikhluta. Á 10 mínútu þriðja leikhluta skoruðu síðan Slóvenar, það sem reyndist sigurmark leiksins og því miður náðum við ekki að jafna þrátt fyrir góð tækifæri. Endanleg úrslit urðu því 3-2 fyrir Slóveníu sem var svekkjandi, því við vorum verulega líkleg til að jafna.
Daginn eftir var leikið við Slóvakíu. Það reyndist nokkuð stór biti fyrir okkar lið. Enda Slóvakar 12 sætum ofar á heimslista en okkar lið,eða í 16. sæti. Leiknum lauk með 15-1 sigri Slóvakíu. Silvía Björgvinsdóttir skoraði eina mark íslands. Góður skóli fyrir okkar konur en gríðarlega erfiður leikur.
Laugardagur var frídagur og loka leikurinn við Kazakstan var leikinn á sunnudag. Að mörgu leiti frábær leikur hjá okkar konum en því miður tókst okkur ekki að skora hjá andstæðingunum. Kasakstan komst yfir á sjöundu mínútu. Íslenska liðið var algerlega inn í leiknum allan tímann og fékk góð færi á að jafna leikinn en það hafðist ekki að þessu sinni. Þegar um tvær mínútur voru eftir af leiktímanum tók Jón Gíslason þjálfari markmanninn Andreu Bachmann út til að freista þess að jafna leikinn sex á móti fimm leikmönnum. Því miður gékk það ekki og Kasakstan skoraði annað mark sitt á autt markið. Endanleg úrslit voru því 2-0 fyrir Kazakstan.
Liðið tapaði því öllum þremur leikjum sínum að þessu sinni. Þrátt fyrir það er greinilegt að liðið hefur getu til þess að vinna sig ofar á heimslista IIHF. Það mikla og góða uppbyggingarstarf sem Jón Gíslason aðalþjálfari liðsins hefur unnið með sínu fólki síðustu ár er greinilega að skila sér. Til viðbótar má geta þess að liðið er ungt og því mikil tækfæri framundan. Raunhæft markmið fyrir liðið næstu árin er að komast niður undir sæti 20 á heimslistanum. Leikirnir gegn Slóveníu og Kazakstan sýna að liðið á fullt erindi þangað. Til hamingju með góðan árangur!!