8. dagur í ferð karlalandsliðs
15.04.2010
Þriðjudagurinn 13. rann upp hér í Narva rétt einsog annarsstaðar. Síðar um daginn voru Kinverjar á dagskránni en rétt einsog hina dagana hófst dagurinn með morgunverði og æfingu. Fram að þessu höfðum við spilað leiki okkar klukkan 13.00 en að þessu sinni áttum við miðleikinn en þeir hefjast klukkan 16.30. Það var því tekinn hádegisverður strax eftir æfingu og síðan kom hvíld í kjölfarið.
Svo rifjað sé stuttlega upp viðureignir okkar við Kínverja þá höfum við leikið við þá á síðustu tveimur mótum sem við höfum tekið þátt í. Úr þeim leikjum höfum við fengið tvö stig af sex mögulegum þó svo að vera síst lakari aðilinn.
Eftir hvíldina var tekinn mjög stuttur liðsfundur. Fundurinn fór fram á herbergi 406, þ.e. herbergi þjálfarans. Segja má að þar hafi liðið þjappað sér saman í orðsins fyllstu merkingu.
Yfirleitt hafa menn um nóg að spjalla í rútunni niður í höll en að þessu sinni ríkti þögnin ein allt þar til Gunni Guðmunds tók “Hey balúbba” lagið sitt og leikmenn tóku undir.
Leiknum sjálfum voru gerð góð skil á mbl.is svo fáu er þar við að bæta.
Lykilleikur gegn Kína í dag.
Risaveldið lá í valnum í Eistlandi.
Sigurður gæti verið nefbrotinn.
Þetta var alvöru leikur.
Brosin á andlitum leikmanna og aðstandenda liðsins voru breið að leik loknum og full ástæða til. Þrjú dýrmæt stig komin í hús. Það skyggði þó nokkuð á gleðina að ítalskur eftirlitsdómari leiksins hafði gert athugasemdir um leik íslenska liðsins við þjálfarana, bæði á meðan á leik stóð og eftir leik. Hvernig umræddur dómari fékk það út að við værum grófir er hinsvegar erfitt að skilja. Tveir leikmenn okkar fengu skurði í andlit á meðan á leik stóð, einn fékk cross check eftir flautu og tvisvar sinnum tóku kínverjar niður hanskana til að slást. Ekki sá samt eftirlitsdómarinn ástæðu til að gera athugasemdir við Kínverjana.
Menn tóku þó gleði sína fljótlega aftur og héldu heim á hótel í kvöldverð. Þjálfarinn gaf þeim sem vildu, og höfðu aldur leyfi fyrir einum bjór eftir matinn en síðan fóru menn til herbergja í hvíld enda leikur daginn eftir.
Myndina tók Kristján Maack.
HH