1. leikur í úrslitakeppni kvenna

Í gær hófst úrslitakeppnin á íslandsmótinu í ishokkí kvenna. Þar mættust lið Bjarnarins og SA og báru Bjarnarstelpur sigur úr býtum með 4 mörkum gegn 2 í jöfnum og spennandi leik þar sem þurfti framlengingu og vítakeppni til að knýja fram úrslit. Konurnar hafa í vetur spilað í þriggja liða deildarkeppni þar sem Björninn hefur teflt fram einu liði en SA tveimur, þ.e. yngra og eldra liði. Þegar deildarkeppninni er lokið sameinast liðin hjá SA og leika þannig gegn liði Bjarnarins. Það lið sem verður fyrst til að vinna tvo leiki hampar Íslandsmeistaratitlinum.  

Bæði lið fóru varlega inn í fyrstu lotu og lauk henni án þess að liðin næðu að skora. Það voru stúlkurnar í SA sem komust yfir á 29. mínútu með marki frá Hrund Thorlacius eftir stoðsendingu frá Söru Smiley. Bjarnarstúlkur náðu hinsvegar að jafna metin áður en lotan var úti og var þar að verki Lilja María Sigfúsdóttir. Ekki voru fleiri mörk skoruð í lotunni og staðan því 1 -1. Bjarnarstúlkur komust síðan yfir á 8. mínútu í þriðju lotu marki frá Hönnu Rut Heimisdóttir en stoðsendingu átti Flosrún Vaka Jóhannesdóttir. SA-stúlkur gáfust þó ekki upp og Anna Sonja Ágústsdóttir jafnaði fyrir þær metin tveimur mínútum síðar og staðan því 2 -2 og þannig var hún þegar flautað var til loka venjulegs leiktíma.
Framlengt var en hvorugu liðinu tókst að skora gullmarkið mikilvæga. Því var gripið til vítakeppni og þar tryggðu Flosrún Vaka Jóhannesdóttir og Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir Bjarnarstelpum sigurinn.

Bjarnarstúlkur voru utan vallar í 10 mínútur en SA-stúlkur 14 mínútur.

Núna færist leikurinn norður yfir heiðar því á morgun þriðjudag verður leikur númer tvö leikinn og hefst hann klukkan 19.15.

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

HH