Björninn - SR (sunnudagsleikur)

Segja má að helgin hafi verið mjög svo viðburðarrík hjá okkur íshokkímönnum. Hún byrjaði á miðjum föstudegi  með 3ja flokks móti á Akureyri og um kvöldið léku SA-menn við Narfann. Sama var uppá teningnum á laugardeginum en þá var 3ja flokks mótinu haldið áfram og Narfinn  og SA menn áttust við um kvöldið. Sjá má úrslit þessara leikja hér. Á sunnudeginum enduðu við svo með fyrstu beinu útsendinguna frá íshokkíleik á RÚV en í honum áttust við Björninn og Skautafélag Reykjavíkur. Segja má að útsendingin hafi verið góður sigur fyrir íshokkí, báðum liðum og öllum sem að komu til mikils sóma.

Það leit reyndar út fyrir í byrjun að SR-ingar ætluðu sér að valta yfir Bjarnarmenn því eftir tæpar 4 mínútur var staðan orðin 0 - 3 SR-ingum í vil. Fóru Þormóðsbræður þar mikinn þar sem Gauti var með tvö mörk og Egill eitt. Áður en fyrstu lotu lauk höfðu Bjarnarmenn samt náð að rétta aðeins sinn hlut og setja tvö mörk og í bæði skiptin var Sergei Zak á ferðinni. Aðeins voru liðnar fáeinar sekúndur af 2. lotu þegar Trausti Bergmann jafnaði metin fyrir Björninn og leikurinn því orðinn opinn upp á gátt. Stuttu seinna voru Bjarnarmenn síðan komnir yfir með marki frá Hrólfi Gíslasyni eftir stoðsendingu frá Birgir Hansen og staðan var því 4 - 3 Birninum í vil þegar flautað var til loka annarrar lotu. Gauti Þormóðsson kom SR-ingum síðan inn í leikinn um miðja 3. lotu en það voru Bjarnarmenn sem áttu lokaorðin með mörkum frá Matthíasi Skildi og Hrólfi Gíslasyni. Lokatölur urðu því 6 - 4 Birninum í vil. Leikurinn var hin besta skemmtun fyrir fjölmarga áhorfendur sem lögðu leið sína í Egilshöll og núna er íslandsmótið orðið opið upp á gátt.

Mörk Björninn:

Sergei Zak 2/0
Hrólfur Gíslason 2/0
Trausti Bergmann 1/0
Matthías Skjöldur 1/0
Birgir Hansen 0/2
Kolbeinn Sveinbjarnarson 0/2
Vilhelm Bjarnason 0/1

Brottvísanir 28 mínútur.

Mörk SR:

Gauti Þormóðsson 3/0
Egill Þormóðsson 1/2
Þórhallur Viðarsson 0/1

Brottvísanir 36 mínútur.

HH