Björninn - SA umfjöllun

Björninn og Skautafélag Akureyrar léku í dag þriðja leikinn í úrslitum og fór leikurinn fram í Egilshöllinni. Leiknum lauk með sigri Bjarnarins sem gerði 4 mörk gegn 2 mörkum SA-manna eftir framlengingu og vítakeppni. Með sigrinum tryggðu Bjarnarmenn sér 2 – 1 forystu í úrslitkeppninni.

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað og segja má að nokkuð jafnræði hafi verið með liðunum í fyrstu lotu. Þegar um 5 mínútur voru liðnar af leiknum náðu Bjarnarmenn að komast yfir með marki frá Daða Erni Heimissyni sem fylgdi eftir eigin skoti sem Ómar Smári hafði varið. Fyrirliði SA-manna Jón B. Gíslason jafnaði hinsvegar metin fyrir þá um miðja lotu en þá nýttu SA-menn sér vel að vera einum fleiri. Ekki voru fleiri mörk skoruð í lotunni og staðan því jöfn 1 – 1 eftir fyrstu lotu.

Í annarri lotunni létu mörkin á sér standa þrátt fyrir að sóknirnar vantaði ekki.

Í þriðju lotunni jafnaðist leikurinn aftur. Skammt var liðið á lotuna þegar Bergur Árni Einarsson kom Bjarnarmönnum yfir með góðu skoti en þeir voru á þeim tíma einum fleiri á ísnum. Björninn var þó ekki lengi í Paradís því um tveimur mínútum seinna voru SA-menn búnir að jafna. Þar var á ferðinni Jóhann Már Leifsson, sem rétt einsog Daði Örn í fyrstu lotu, fylgdi eftir eigin skoti sem Snorri markvörður þeirra Bjarnarmanna hafði varið. Þegar rúmar tvær mínútur lifðu leiks fengu Bjarnarmenn kjörið tækifæri til að tryggja sér sigurinn en Ómar Smári markvörður SA-manna varði þá víti Gunnars Guðmundssonar.

Því var framlengt og spilað upp á gullmark. Ekkert mark kom þó í framlengingunni en SA-menn fengu þó kjörið tækifæri til að klára leikinn þegar Bergur Árni fór í boxið og spilað var 3 – 4 menn inn á ísnum.

Vítakeppnin var því staðreynd og þar gerði Snorri Sigurbergsson sér lítið fyrir og varði öll fjögur skot SA-manna á meðan þeir Einar Sveinn Guðnason og Ólafur Hrafn Björnsson náðu að nýta tvö víti Bjarnarmanna.

Leikurinn var hin ágætasta skemmtun fyrir áhorfendur og ekki vantaði spennuna í lokin. Leikin má sjá hér næstu tvær vikurnar.

Mörk/stoðsendingar Björninn

Daði Örn Heimisson 1/0
Bergur Árni Einarsson 1/0
Gunnar Guðmundsson 0/1
Brynjar F. Þórðarson 0/1

Víti  Björninn:

Einar Sveinn Guðnasson
Ólafur Hrafn Björnsson

Refsimínútur Björninn: 10 mín.

Mörk/stoðsendingar SA:

Jón B. Gíslason 1/0
Jóhann Már Leifsson 1/0
Steinar Grettisson 0/1
Ingvar Þór Jónsson 0/1
Josh Gribben 0/1

Refsimínútur SA: 12 mín.

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

HH