03.02.2007
Þeir áhorfendur sem lögðu leið sína í Egilshöll í gærkvöld til að horfa á leik Bjarnarins gegn SA-mönnum voru ekki sviknir. Boðið var uppá ágætis íshokkí og spennu fram á síðustu sekúndu. Strax á 5. mínútu kom Jón B. Gíslason SA-mönnum yfir með marki sem Alex Ala-Lahti vill sjálfsagt gleyma sem fyrst. Bjarnarmenn tóku þá við sér og Kópur Guðjónsson jafnaði metinn skömmu síðar. Áður en þriðjungurinn var liðinn bættu bæði lið við marki og voru þar að verki áðurnefndur Jón B. Gíslason fyrir norðanmenn og Trausti Bergmann fyrir Bjarnarmenn. Í öðrum leikhluta komu Bjarnarmenn grimmir til leiks og uppskáru tvö mörk án þess að að SA-menn næðu að svara fyrir sig. Kom þar ekki síst til stórleikur markmanns Bjarnarins sem hefur sýnt það oft í vetur að hann kann eitt og annað fyrir sér á milli stanganna. SA-menn sýndu hinsvegar að leikurinn er ekki búinn fyrr en hann hefur verið flautaður af. Þeir áttu þrjú síðustu mörk leiksins og unnu þar með Bjarnarmenn með fjórum mörkum gegn fimm. Einsog áður sagði voru Jón B. Gíslason og Alex Ala-Lahti áberandi á vellinum. Einnig átti Sergei Zak spretti sem yljaði áhorfendunum sem og Tomas Fiala. Guðmundur B. Ingólfsson var mættur í vörn Bjarnarmanna að nýju og þarf enginn að efast um vörn þeirra mun styrkjast við það.
Mörk/stoðsendingar Björninn:
Kópur Guðjónsson 1/1
Daði Örn Heimisson 1/1
Kolbeinn Sveinbjarnarson 1/0
Trausti Bergmann 1/0
Birgir J. Hansen 0/2
Sergei Zak 0/1
Stefán Þ. Kristinsson 0/1
Róbert Freyr Pálsson 0/1
Brottvísanir Björninn: 22 mín.
Mörk/stoðsendingar SA:
Jón B. Gíslason 4/0
Guðmundur Guðmundsson 1/0
Tomas Fiala 0/2
Helgi Gunnlaugsson 0/2
Sigurður Sigurðusson 0/1
Brottvísanir SA: 36 mín.
HH
Mynd: Sergio