Björninn Íslandsmeistari í Kvennaflokki

Í gærkvöldi fór fram í Egilshöllinni úrslitaleikur á milli Bjarnarins og SA í kvennaflokki.  Íslandsmótið var óvenju spennandi í ár og fyrir þennan úrslitaleik skyldi aðeins eitt stig liðin að.  Birninum dugði jafntefli til að tryggja sér sigurinn en gerði gott betur og vann með 7 mörkum gegn 4.
 
Bjarnarliðið fór betur af stað í leiknum og vann 1. lotu 2 - 0.  Í upphafi 2. lotu bætti Björninn svo við 3. markinu en þá tók við góður kafli hjá SA sem skoraði 4 mörk í röð og náði forystunni 4 - 3.  Björninn var þó ekki af baki dottinn og jafnaði leikinn fyrir lok lotunnar.
 
Það var því mikil spenna í höllinni þegar 3. lota hófst og hart barist.  Björninn var þó sterkari aðilinn og vann lotuna verðskuldað 3 - 0 og lokastaðan því 7 mörk gegn 4.  Leikmenn Bjarnarins fögnuðu vel í leikslok enda bundu þær enda á 5 ára sigurgöngu norðanstúlkna frá 2001 til 2005 sem gerir sigurinn án efa sértaklega sætan.  Í upphafi tímabils virtist sem enging breyting ætlaði að verða á því norðanstúlkur voru sterkari í fyrstu leikjunum en síðan snérist blaðið við og Bjarnarliðið sýndi mikla yfirburði seinni hluta tímabils og uppskar verðskuldaðan og langþráðan Íslandsmeistaratitil.