29.12.2006
Áramótahugleiðing
Þegar stjórnin var að vinna því að velja íshokkímenn ársins í kvenna og karlaflokki þá fóru menn að líta til baka og hugsa hverjir hefðu skarað fram úr á síðasta tímabili. Á sama tíma fékk ég þá hugmynd að setjast niður og líta yfir farinn veg og setja á blað það sem mér finnst skipta máli með íþróttina íshokkí. Ég hef nú unnið hjá ÍHÍ í u.þ.b fjóra mánuði og á þeim tíma hefur ýmislegt á daga mína drifið. Einsog kanski margir vita þá hafði ég aldrei á íshokkíleik komið áður en stjórn sambandsins ákvað að ráða mig til starfans, þannig að ég var ekkert inn í þeim hlutum er íþróttina varðaði.
Mótamál
Margir myndu segja að það ætti ekki að vera flókið mál að koma saman mótaskrá þar sem einungis væru þrjú lið að spila og það má segja að eitt og annað sé til í því. Það hefur samt reynst þrautinni þyngri og má segja að fleiri en ein ástæða sé fyrir því. Má sem dæmi nefna misjafnt aðgengi að skautahöllum, blöndun leikmanna milli flokka, mikil þáttaka landsliða okkar í keppnum á erlendri grund. Þar sem mótið hófst einnig tiltölulega seint þá verður að keyra það mjög þétt og þá má lítið útaf bera t.d. varðandi frestanir á leikum, því annars er mótanefndin og mótið sem slíkt komin í vandræði. Að sjálfsögðu er stefnan hjá okkur að koma betur undirbúin á næsta ári með mótamál, þ.e að dagskráin verði komin á hreint sem fyrst þannig að mótið geti hafist og að mótaskrá standist sem best. Einnig þarf að stefna að því að framkvæmd leikja og skýrsluskrif batni en þetta eru þó vandamál sem ætti ekki að vera erfitt að leysa. Ég er að vonast eftir því að í byrjun næsta tímabils verði hægt að taka að fullu í notkun hið svokallaða “danska kerfi” en það myndi gera alla framkvæmd og umgjörð skemmtilegri. T.d. lægi öll tölfræði fyrir stuttu eftir leik og því léttara að koma fréttum á framfæri við fjölmiðla.
Dómaramál
Það má kanski segja að það hafi komið mér svolítið á óvart hvað fáir sækja dómaranámskeið í íþróttinni miðað við hvað margir dómarar virðast vera í stúkunni á hverjum leik. Rétt einsog í mörgum öðrum íþróttum á þessi stétt manna, þ.e.a.s. dómar, undir högg að sækja og því mjög nauðsynlegt að standa þétt við bakið á henni. Menn verða einfaldlega líka að gera sér grein fyrir því að án dómara er engin íþrótt. Það sem dómaranefndin hefur aðallega unnið í er m.a. þetta: Haldin hafa verið dómaranámskeið bæði norðan heiða og hér fyrir sunnan. Uppfærð hefur verið dómarabók til dagsins í dag. Haldið hefur verið námskeið þar sem erlendur dómari var fenginn til að halda fyrirlestur og einnig horfði hann á dómara í leik og gaf þeim góð ráð. Unnið er í því að dómarar geti fengið leiki, sem þeir dæma, á DVD-disk og þannig farið yfir leikinn og séð hvað má betur fara. Stefnt er að því að dómarar öðlist reynslu með því að dæma leiki erlendis. Þess má til gamans geta að dómarinn sem kom til okkar frá Kanada dæmdi um áttatíu leiki á einu tímabili í NHL en það er helmingi meira en allir okkar meistarflokksdómarar gera til samans. Þegar kemur að dómaramálum þá þýðir ekkert annað en að horfa langt fram í tímann, góður dómari verður ekki skapaður á einni nóttu. Vandamál okkar í dómgæslu stafa mestmegnis af því að dómarar okkar hafa ekki næga reynslu og þeir dæma alltof fáa leiki sem virkilega bæta í reynslubankann.
Landsliðsmál
Unnið hefur verið að því að koma betra skikki á landsliðsmálin. Ekki er hægt að kvarta yfir því að metnaðinn vanti í þá þjálfara, sem taka að sér í sjálfboðavinnu að þjálfa landsliðin okkar. Aðalvinnan hjá mér varðandi landsliðin hefur verið að aðstoða þjálfarana við undirbúning æfingabúða og síðan undirbúa ferðalagið og allt sem að því kemur með landsliðsnefnd. Mjög líklegt er að betri árangur næðist á mörgum mótum ef landslið okkar næðu að æfa og keppa meira áður en á mótin er haldið. Til gamans má geta þess, að Ungverjar sem léku með okkur í riðli á U20, léku 17 æfingaleiki áður en þeir komu til mótsins. Í þessu málum einsog svo mörgum öðrum höfum við orðið að sníða okkur stakk eftir vexti hvað sem öllum metnaði líður.
Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Ef við horfum framhjá þessu daglegu málum sem alltaf er verið að vinna að og ég hef nefnt hér að ofan þá er ekki minna mikilvægt að horfa fram á veginn. Í mínum huga er það ekkert vafamál að íshokkííþróttin á fjölmörg sóknartækifæri hér á landi. Það er nefnilega engin ástæða til að ætla annað en að íshokkí íþróttin geti náð góðum hluta af þeim vinsældum sem hún nýtur hjá frændþjóðum okkar. Einsog flestir vita þá er íshokkí stór íþrótt á flestum Norðurlandanna enda er íþróttin skemmtileg á að horfa og alltaf nóg að gerast. Til að svo verði verður markvisst að vinna að því, ég tel að tvennt sé mikilvægast til að byrja með. Annarsvegar að reyna með öllum ráðum að auka útbreiðsluna, þ.e. að fá fleiri inní íþróttina. Og hinsvegar að þrýsta á bæjarfélög að byggja skautahallir þannig að aðstaða til æfinga verði betri og auðveldara verði að fjölga liðum. Varðandi fyrra atriðið vonast ég til þess að ÍHÍ ásamt aðildarfélögum geti unnið saman í að fjölga þáttakendum. Það gefur augaleið að samkeppni milli íþróttagreina og ekki síst annarsskonar afþreyingar er geysihörð. Því veitir ekki af að allir leggist á eitt og reyni sitt besta hvað þetta mál varðar. Varðandi skautahallir þá finnst mér alveg gefa orðið augaleið að bæði Kópavogur og Hafnarfjörður verða að sjá sóma sinn í að bjóða bæjarbúum upp á aðstöðu til að fara á skauta. Ef við horfum 5 -7 ár fram í tímann þá viljum við helst sjá ekki minna en fimm skautahallir og fimm lið í deild. Segja má að brýnasta verkefnið til skemmri tíma sé hinsvegar að koma saman fjórða liðinu en á síðasta formannafundi voru þau mál rædd og voru allir sammála um nauðsyn þess.
Að lokum.
Meira og minna er allt starf aðildarfélaga ÍHÍ byggt á sjálfboðaliðastarfi. Einsog verða vill þá lendir það starf mikið til á sömu manneskjunum. Til að íþróttin nái að vaxa þarf þeim sem koma að félögunum að fjölga. Ég vil því skora á gamlar íshokkíkempur og annað áhugafólk um íshokkí að hafa samband við sitt félag og athuga hvort það sé ekki eitthvað sem það geti aðstoðað forsvarsmenn félaganna við, t.d. við framkvæmd leikja. Þið þurfið engar áhyggjur að hafa.......Innlit/útlit verður hvort sem er endursýnt J
Ég vil að lokum þakka stjórnarmönnum ÍHÍ, formönnum aðildarfélga og öðrum þeim sem ég hef unnið með á árinu fyrir mjög svo gott samstarf og vona að það verði ekki síðra á nýju ári.
Gleðilegt ár.
Hallmundur Hallgrímsson