2. dagur í ferð karlaliðs

Annar dagur hér í svíaríki var tekinn snemma þar sem morgunverður var klukkan 7.15 og svo æfing í kjölfarið. Menn voru misjafnlega hressir með svona ræs en komust þó allir nokkuð vel frá því.

Æfingin gekk eins og í sögu en hún stóð yfir í um einn og hálfan tíma. Að henni lokinni gæddi liðið sér á þessum fínu kjötbollum í skautahöllinni en síðan var haldið heim á hótel og þjálfarinn gaf frjálsan tíma en boðaði þó liðsfund um miðjan dag. Á meðan leikmenn slökuðu á fóru þjálfarar og fararstjóri í bæinn og gerðu sitt allra besta til að hafa út peninga úr bönkum staðarins enda eitt og annað sem þarf að borga. Þrátt fyrir að hafa gert ráðstafanir áður en lagt var af stað að heiman var litla peninga að hafa. Engar almennilegar skýringar var að hafa í bönkunum sem heimsóttir voru og því verður þetta allt skrifað á útrásararvíkinga og annað slíkt fólk.

Þegar peningamennirnir komu upp á hótel aftur var orðið stutt í fund. Þrír liðsmenn áttu í nokkrum erfiðleikum með að slíta sig frá rúminu sínu en vaskur Tommi nýliði hafði þá þó á fætur. Tommi átti síðar eftir að sýna á sér fleiri góðar hliðar. Á fundinum fór Richard þjálfari yfir það helsta. Þ.e. hvert leikskipulagið yrði, hvert hlutverk einstakra leikmanna væri og síðast en ekki síst á hvaða sæti liðið ætlaði að stefna í keppninni. Fundurinn tók um klukkustund en að honum loknum var farið í miðdegismat um klukkan hálf fjögur.

Klukkustund síðar var liðið komið upp í rútu og á leið í leik við Mörrum Gois. Ekki fór nú leikurinn eins og ætlast var til. Niðurstaðan varð 8 - 1 tap okkar manna. Markið okkar skoraði fyrrnefndur Tommi nýliði sem skírðu var Tómas Tjörvi Ómarsson fullu nafni. Stoðsendingu átti Jón B. Gíslason. Í stuttu máli má segja að fyrsta lotan hafi verið ágæt hjá okkar mönnum en síðan fór nokkuð að halla undan fæti. Mörrum-liðar voru fljótir á skautunum en einnig góðir í að nýta sér mistök okkar manna. Margir leikmanna okkar liðs hafa líka verið nokkurra stund frá keppni þannig að þeir eiga eftir að koma sér betur í gang þegar á líður.

Eftir leik var farið upp á hótel en þar beið brauð og ávextir leikmanna. Hluti af hópnum skellti sér í gufubað meðan aðrir tóku spjallið og slöppuðu af enda menn þreyttir eftir ferðalög og æfingar og leik. 

Morgundagurinn verður svo á svipuðu róli nema hvað enginn verður leikurinn heldur einungis æft. Meira um það síðar.

Myndina tók Kristján Maack.

HH