1. dagur í ferð karlaliðs
06.04.2010
Við munum skrifa einhverja ferðasögu hérna á síðuna frá æfinga- og keppnisferð íslenska karlalandsliðsins til Svíþjóðar og Eistlands. Ferðasagan verður hér á forsíðunni til að byrja með en einnig verður hægt að finna hana á “Karlalandliðs”-tenglinum hér vinstra meginn á síðunni.
Það var semsagt eldhress mannskapur sem mætti upp í Leifstöð klukkan 5.40 í morgun. Þetta er nú samt ekki nema rúmlega helmingur af heildarhópnum. Innritun gekk einsog í sögu þrátt fyrir hornauga frá einstaka starfsmanni innritunardeildar Icelandair yfir farangrinum sem fylgdi okkur. Tómas Tjörvi var fljótlega minntur á að hann væri nýliðinn í hópnum og kylfutaska og fleira smálegt sett undir hans ábyrgð.
Þegar allir farþegar voru komnir í sæti sín og ekkert annað eftir en að loka hurðinni á vélinni, kom babb í bátinn. Hurðin vildi ekki lokast. Þegar starfsmaðurinn reyndi sitt ýtrasta blés út rennibraut í neyðarútgang eða eitthvað þessháttar. Flugstjórinn tilkynnti 40 mínútna töf. Töfin varð rúmlega sá tími og á endanum tilkynnti flugstjórinn að skipta þyrfti um vél. Í það fór klukkutími eða svo og það var ekki fyrr en rúmum tveimur tímum of seint sem vélin fór í loftið. Maður huggast sig þó alltaf við það að það er öllu betra að flugvélar bili á jörðu niðri en í lofti uppi.
Á Kastrup biðu fjórir liðsmenn, þ.e. þeir Snorri, Matthías, Birkir og Breki en einnig rúta frá Mörrum eftir okkur. Stuttu seinna fórum við yfir Eyrabrúnna . Fræg amerísk hamborgarabúlla varð á vegi okkar og á henni var tekinn snöggur málsverður til að seðja sárasta hungrið.
Enn fleiri liðsfélagar biðu á Skandic hótel í Karlsholm og þegar þar var komið við sögu vantar einungis í hópinn einn leikmann sem væntanlegur er til Eistlands næstkomandi föstudag.
Dagskráin sem sett hafði verið upp vegna æfinganna hérna í Svíþjóð var aðeins komin úr skorðum vegna seinkuninnar fyrr um daginn. Kvöldmatur var því tekinn í skyndi og síðan æfing en eins og sjá má hér er dagskráin nokkuð þétt á meðan við dveljum hérna. Góð æfing var tekin á skautasvellinu í Mörrum og ekki annað að sjá en að allir séu hressir og í góðu standi. Kristján tækjastjóri hefur í nógu að snúast eins og oft vill verða á fyrstu dögum enda þarf að mörgu að huga. Richard og Johan nutu aðstoðar Tommy fyrrum þjálfara hjá Mörrum á æfingunni. Eftir hana var léttur viðgjörningur á hótelinu og síðan fóru allir á herbergi enda verður dagurinn tekinn snemma á morgun.
Meira síðar.
HH