02.03.2004
Varðandi það atvik sem átti sér stað í leik Bjarnarins og SA síðastliðinn laugardag er rétt að benda á skrif á heimasíðu SA en þar segir:
"Fljótlega í 3. lotu lentu Sigurður Sigurðsson og Sergei Zak í ákeyrslu þar sem sá síðarnefndi bar fyrir sig kylfuna, með þeim afleiðingum að sá fyrrnefndi fékk ríkisbifreiðar skutl á slysadeildina. Smá hlé varð að gera á leiknum á meðan ísinn var hreinsaður eftir áreksturinn en í framhaldinu var eitthvað brambolt á milli leikmanna sem einnig tafði leikinn. Mikil umræða hefur spunnist um þetta atvik á spjallþráðum veraldarvefsins auk þess sem fréttamenn hafa nálgast upplýsingar um þetta á heimasíðu Skautafélags Reykjavíkur.
Það rétta í þessu er það að slys gerast í þessari íþrótt sem öðrum og flestir leikmenn vita að stundum þarf að taka ákvarðanir á sekúndubroti og eðlilega verða ekki allar slíkar skyndi ákvarðanir réttar. Viðkomandi leikmenn hafa ræðst við, tekist í hendur og ýtt þessu atviki að baki sér og hvernig sem á þessu öllu saman stóð - þá er það gleymt og grafið. Það er í mesta lagi hægt að minnast þess til þess að læra af því en alls ekki til að velta sér uppúr og mála skrattann á vegginn."
ÍHÍ vill þakka báðum þeim aðilum sem í eldlínunni stóðu fyrir að taka á þessu máli af yfirvegun og með íþróttamannslegri framkomu. Framkoma þeirra og virðing í garð hvers annars er til fyrirmyndar fyrir aðra í hreyfingunni.