16.04.2008
Útvaldir '95 (Selects '95) sem staðið hefur yfir í Egilshöll síðastliðna daga lauk í gær með móti sem stóð frá morgni til kvölds. Liðin fjögur sem komu frá Kanada, Bandaríkjunum og Evrópu öttu þar kappi en einnig var bætt við liði íslenskra drengja úr öllum félögunum hérna heima. Þrátt fyrir að hafa ekkert æft og tapað öllum leikjum sínum náði íslenska liðið oft ágætlega að standa í andstæðingunum og án efa fer þetta inn á reynslubankann hjá drengjunum. ÍHÍ lánaði galla svo drengirnir væru allir eins og má sjá mynd af hópnum hér fyrir ofan. Gaman var einnig að sjá aðstandendur drengjanna sem bæði mættu til að horfa en ekki síður til að leggja fram hjálp sína við framkvæmd leikjanna svo allt gengi snuðrulaust fyrir sig.
Eftir mótið var þeim Steindóri Ingasyni og Birni Róbert Sigurðssyni boðið að halda til Finnlands og Svíþjóðar til að keppa með svokölluðu Howe Elite Team sem er úrvalslið sem Travis Howe er með. Auk þess að vera barnabarn Gordon Howe sem var þekktur hokkíleikmaður á árum áður rekur Travis, Selects Hockey sem er fyrirtæki sem leitar uppi og kemur saman efnilegum hokkíspilurum. Björn og Steindór munu byrja á að fara til Finnlands til æfinga og spilamennsku í þrjá daga en síðan verður haldið yfir til Svíþjóðar. Þar munu drengirnir spila í stórmóti sem telur eina 14 leiki. Enginn vafi er á að þetta er mikil lyftistöng fyir þá sem leikmenn, en ekki síður fyrir aðra leikmenn, að leggja enn harðar að sér því ekki er ólíkegt að Travis og hans fólk muni nú beina augum sínum enn meira að Íslandi á komandi árum.
Það var Sergei Zak yfirþjálfari sem hafði veg og vanda af komu hópsins hingað til lands og þessi tenging hans inn í þennan hóp á vonandi eftir að koma íslensku hokkí vel í framtíðinni.
HH